fbpx
thorsteinn-gauti-vefur

Súrt tap á heimavelli í Olísdeild karla

img_4648Strákarnir okkar hófu aftur leik í Olísdeildinn þegar þeir mættu Gróttu á heimavelli í kvöld.  Við áttum harma að hefna eftir að hafa farið illa að ráði okkar í fyrri leiknum á nesinu í haust. Það var ágætlega mætt á leikinn og mikil stemming þegar leið á leikinn, bara gaman í Safamýrinni í kvöld.
Við byrjuðum leikinn vel, voru virkilega frískir og bullandi barátta í strákunum.  Vi ð tókum strax frumkvæðið og voru að setja góð mörk.  Vorum yfir fyrstu 15 mín leiksins og litum bara vel út.  Minnir að staðan hafi verið 8-5 eftir c.a 15 mín.  Þá var eins og við ætluðum að gera þetta dálítið upp á eigin spýtur, menn tók alltaf fyrsta séns, völdu að skjóta úr vondum færum ásamt því að gera mikið af tæknifeilum. Þetta þýddi auðvitað auðveld mörk fyrir Gróttu og á stuttum tíma voru þeir komnir yfir og við farnir að elta. Varnarleikurinn okkar fór dálítið út og suður og markvarslan sömuleiðis.  Leikurinn samt nokkuð jafn og það fór svo að lokum að við jöfnuðum  með síðasta skoti hálfleiksins, staðan í hálfleik 14-14.  Mjög kaflaskiptur hálfleikur og ljóst að við þyrftum að gera betur.
Við byrjuðum síðari hálfleik illa, héldum áfram að spila illa sóknarlega og það gerir andstæðingnum auðvellt fyrir.  Vorum komnir 4 mörk undir eftir 40 mín.  Við hreinlega ekki nógu ákveðnir í okkar aðgerðum, bæði í vörn og sókn.  Það sem var merkilegt við leik okkar í kvöld var að við vorum alltaf inni í honum. Náðum reglulega að minnka muninn í 1-2 mörk en aldrei nær en það og þegar maður hélt að þetta væri búið þá vorum við allt í einu komnir í bullandi möguleika á því að stela stigi eða stigum.  Loka mínútur leiksins voru gríðarlega spennandi,  allir í húsinu FRAM-megin staðnir á fætur og létu öllum illum látum, bara stemming í húsinu.  Við náðum svo að vinna boltann þegar 10-15 sek voru eftir en Gróttumaður stökk á okkar mann og dróg hann niður, ég hélt að við myndum fá víti, rautt spjald og í framhaldinu blátt spjald frá ágætum dómurum leiksins en viti menn, þeir spjölluðu við alla í húsinu nema áhorfendur og fundu það svo út að dæma skildi aukakast og tvær mín. Ég hélt að ásetningsbrot á loka mín. leiksins þýddu rautt og víti, að markmiðið væri að losa handboltann við þessu brot á loka mín. leiksins.  En hvað veit ég, þeir voru svo  alltof seinir að stoppa tímann og við náðum ekki að koma skoti á markið, tíminn rann því miður út.  Lokatölur 29-30.
Kannski áttum við ekki skilið að fá neitt út úr þessum leik, því við vorum ekki  að spila vel, varnarleikur okkar ekki nógu góður, samt ágætur á nokkrum köflum, markvarslan ekki nógu góð, sóknarlega vorum við svakalega misstækir sem gerði okkur lífið virkilega erfitt. Hef ekki tölu á því hvað við fengum á okkur mörg mörk úr hröðum upphlaupum í kvöld.  Það sem ég var óánægður með var að eftir fína byrjum hættum við að spila sem lið, mér fannst við slaka á og það kom svo sannarlega í bakið á okkur.  Það var hinsvegar mjög jákvætt að við héldum áfram allan leikinn og reyndum allt fram á síðustu sek. En það dugði bara ekki í kvöld.  Þurfum að spila betur á mánudag  þegar við mætum ÍBV í eyjum. Upp með hausinn drengir og gefum allt í næsta leik, við höfum bullandi trú á ykkur.

ÁFRAM FRAM

Jói var á vélinn í leiknum og það munu koma fullt af flottum myndum á eftir, slóðin er http://frammyndir.123.is/pictures/
Kíkið á það.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!