Knattspyrnufélagið FRAM

111 meðferð í lokaumferð

Einhver skemmtilegasti leikur sem fréttaritari Framsíðunnar man eftir í seinni tíð var lokaleikurinn í Pepsídeildinni árið sem við fórum niður. Fram liðið var fallið en mótherjarnir, Fylkismenn, hefðu tryggt sér Evrópusæti með sigri. Skemmst er frá því að segja að Framarar eyðilögðu partýið og liðið í sýnileikavestunum gekk ekki hlæjandi til sængur.

Nú er engum séstaklega illa við Fylki. Ekkert við það félag megnar að kveikja jafn heitar og hreinar tilfinningar í brjósti nokkurs manns á borð við andúð hvað þá hatur. En stundum er bara svo skemmtilegt að vera í hlutverki Láka jarðálfs og gera eitthvað rækilega vont á borð við að hella rauðgraut yfir kisulórur eða spilla fyrir Evrópuævintýri.

Það var langsóttur möguleiki á að Framarar gætu tekið að sér
hlutverk Láka jarðálfs á Leiknisvellinum í dag. Heimamenn áttu langsótta von um
úrvalsdeildarsæti með sigri að því tilskyldu að Grótta misstigi sig á móti
Haukum. Fyrir hefðarsinna á borð við fréttaritarann, sem á bágt með
tilhugsunina um Gróttu í deild þeirra bestu, kallaði þetta á erfiðar spurningar
og mikla tilvistarangist.

Það var indælisveður í Fellahverfi og fullt af fólki á
vellinum. Obbinn á bandi heimamanna, ætli Framarar í stúkunni hafi verið mikið
fleiri en þrjátíu? Vinalegi miðavörðurinn heilsaði hverjum einasta vallargesti
og bauð fólkið velkomið á völlinn sem er kenndur við einhvera fasteignasölu. Ég
á mér draum um heimavöll í Úlfarsárdal sem við stillum okkur um að gefa
eitthvað fábjánanafn til að uppfylla styrktarsamning. Sennilega kallar það þó á
afnám kapítalismans fyrir árið 2022.

Framarar tefldu fram örlítið breyttu liði þar sem mest
munaði um fjarveru Unnars Steins fyrirliða sem var í banni. Efsta línan var þó
kunnugleg: Matthías, Gunnar, Marcao, Haraldur og Hlynur í markinu. Stefán
Ragnar leysi Unnar Stein af hólmi aftast á miðjunni. Hann er varnarmaður að
upplagi og sáust þess merki í leiknum. Tiago, Fred og Jökull voru á miðju og
köntum en Alex og Helgi frammi.

Spennustigið var hátt hjá heimamönnum sem virtust afar
óstyrkir fyrstu mínúturnar á meðan Framarar pressuðu hátt og náðu upp góðum
samleik. Bæði lið komu mjög aggressív inn í leikinn og máttu Framarar teljast
ljónheppnir að hafa ekki nælt sér í rautt spjald á fyrstu tíu mínútunum þar sem
Gunnar braut klaufalega af sér á gulu spjaldi og Stefán fór í seina tæklingu og
uppskar gult sem hefði mátt vera í það minnsta bleikt. Fyrstu tuttugu
mínúturnar virtist dómarinn ekki hafa neina stjórn á leiknum og áhorfendur voru
sannfærðir um að leikmenn myndu fljúga útaf hægri vinstri.

Á 17. mínútu fengu Framarar hornspyrnu sem tekin var stutt
og Fred skrúfaði knöttinn glæsilega upp í markhornið, óverjandi og frábært
mark! Heimamenn voru slegnir út af laginu og á næstu 3-4 mínútum fengu Framarar
tvö sannkölluð dauðafæri. Það fyrra þar sem Helgi, Fred og Alex fengu allir
opin skotfæri en ákváðu allir að senda í staðinn á félaga sinn. Síðast barst
boltinn til Tiago sem var líka hikandi við að láta vaða en endaði svo á að
skjóta framhjá úr kjörstöðu. Þetta sló raunar tóninn fyrir leikinn: alltof oft
komu Framarar sér í upplögð færi en ákváðu að spila áfram í stað þess að
skjóta. Það er vond taktík eins og fréttaritari Framsíðunnar getur vottað eftir
24 ára reynslu í bumbubolta. Stundum er best að loka bara augunum og negla með
tánni!

Alex fékk frábært færi á 20. mínútu og Breiðhyltingar
virtust heillum horfnir. Ef öðru færinu hefði lokið með marki er viðbúið að
leiknum hefði lokið með 3-4 marka Framsigri. En því var ekki að heilsa.

Fyrri hálfleikur var rétt um hálfnaður þegar brothættur
dómari leiksins gaf heimamönnum víti fyrir heldur litlar sakir. Einn
Leiknismaðurinn bakkaði inn í Marcao og hrundi því næst í jörðina. Brasilíska
tröllið gat lítið gert við þessu, en auðveldaði dómaranum þó ákvörðunina með almennum
klunnaskap. Balletdansaraefni er hann í það minnsta ekki.

Við tók kaflaskiptur leikur, þar sem varnarleikurinn á
miðjum beggja liða var svo slakur að þau skiptust á að halda boltanum í
maraþonsóknum. Framarar náðu oft góðum samspilsköflum og fínum hlaupum upp
kantana, en voru um leið skelfilega brothættir hinu megin á vellinum. Og eins
og áður hefur verið sagt: markskotin vantaði!

Kaffið í Leiknisskúrnum var þokkalegt en hálfleiksspjallið
einkenndist af því að annar hver maður var með trýnið oní farsímanum að lesa um
stöðuna í öðrum leikjum og reikna út gang mála í fallbaráttunni. Gróttumenn
voru á sama tíma að sigla úrvalsdeildarsætinu í höfn. Fækkun liða í efstu deild
niður í ellefu næsta sumar hlýtur að koma alvarlega til umræðu!

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði. Liðin
skiptust á að pressa en minna bar á opnum marktækifærum. Eftir rúmlega
klukkutíma leik freistaði Jón þjálfari þess að hrista upp í spilinu með
tvöfaldri skiptingu. Matthías og Alex fóru útaf og Már og Magnús komu inná. Um
leið var fækkað um einn í vörninni.

Miðað við hina grútlinu vítaspyrnu Leiknismanna í fyrri
hálfleiknum var skrítið að sjá Má keyrðan niður í teignum á 70. mínútu án þess
að neitt væri dæmt. Og tveimur mínútum síðar áttu Framarar það sem virtist endalaus
sókn þar sem ótal færi gáfust til að skjóta en ekkert gerðist. Þegar tíu
mínútur lifðu af venjulegum leiktíma þurfti að gera þriðju og síðustu
skiptinguna þegar Heiðar Geir kom inná fyrir Jökul sem hafði orðið fyrir
hnjaski.

Már fékk síðasta verulega góða færi okkar í leiknum á 83.
mínútu, þar sem hann komst einn í gegn en náði ekki skoti. Eftir það dró hratt
af bláklæddum. Leiknismenn höfðu einfaldlega mun meiri sigurvilja, hvattir
áfram af fjölmennum hópi stuðningsmanna. Hlynur hélt okkur inni í leiknum með
nokkrum góðum vörslum, en þegar komið var fram í uppbótartíma steinsofnaði
vörnin og sigurmark Leiknis leik dagsins ljós, 2:1.

Ergilegur endir á því sem verður að teljast ásættanlegt
tímabil. Þótt sjöunda sætið sé ekkert til að hrópa húrra fyrir er ekki nema
stig upp í fjórða sætið og 33 stig er bærileg uppskera. Hver hefði trúað því að
það skilaði sér í betri frammistöðu á vellinum að skipta ekki út öllum
leikmannahópnum við lok hverrar leiktíðar?

Undirbúningurinn fyrir næsta ár er þegar byrjaður og við
tekur landsbyggðardeildin mikla. Nauðsyn þess að viðhalda Reykjavíkurflugvelli
hefur aldrei verið augljósari – og helst endurheimta neyðarbrautina.
Fáskrúðsfjörður, Ísafjörður og Vestmannaeyjar eru þó allt ákjósanlegur
fórnarkostnaður fyrir að losna við ferðina suður á Ásvelli í frystikistuna sem
nefnist Haukavöllurinn. Með klókindum hefur Frömurum nú tekist að losna við
bæði Hauka og Gróttu úr deildinni, lið sem hirtu af okkur öll sex stigin í
sumar. Með þeim fyrirvara að fréttaritari Framsíðunnar er hugvísindamaður og
máladeildarstúdent virðist þessi tölfræði staðfesta að útilokað sé annað en að
Framarar fari upp að ári. Fagna því allir góðir menn.

Stefán Pálsson

Á döfinni

Fim. 2. júlí  Álftanes 3 – 1 FRAM
2. deild kvenna Bessastaðavöllur
Fös. 3. júlí  FRAM 1 – 0 Afturelding
Lengjudeild karla Framvöllur
Þri. 7. júlí  kl. 19:15  Víkingur Ó – FRAM
Lengjudeild karla Ólafsvíkurvöllur
Lau. 11. júlí  kl. 14:00  FRAM – Leiknir R.
Lengjudeild karla Framvöllur
Mán. 13. júlí  kl. 19:15  HK – FRAM
2. deild kvenna Kórinn

Samstarfsaðilar