Knattspyrnufélagið FRAM

Og þá er það byrjað…

Við gerðum öll hluti í plágunni sem við skömmumst okkar
fyrir. Fordæmalausar aðstæður kalla á róttækar og aðgerðir. Eldra gildismati er
vikið til hliðar og það sem áður hefði talist óhugsandi verður skyndilega
viðtekið.

Fréttaritari Fram-síðunnar getur játað í þennan hóp að hafa
horft á leiki í hvítrússnesku deildinni í fótboltaþurrð þessa vormisseris.
Þetta voru höktandi vefstraumar með lýsingu á torkennilegum slavneskum tungum
frá skuggalegri síðu sem eflaust hefur fyllt heimilistölvuna af njósnavírusum
eða því sem verra er. – Ég myndi samt gera það aftur.

Það var í sjokkerandi að uppgötva í covid-fárinu hvað
fótboltagláp er stór hluti af hinni daglegu tilveru. Leikir í innlendum og
erlendum íþróttadeildum eru mælistikurnar á það hvernig tímanum líður, vikunum
vindur fram og ein helgi tekur við af annarri. Jafnvel þegar maður er ekki
beinlínis að horfa á annað fólk sparka í bolta eða kasta honum, í eigin persónu
eða í sjónvarpinu, þá tryggja úrslitasíðurnar á netinu að maður er bara fáeinum
smellum á símanum frá næsta fixi.

Það var því hreinasta nautn að komast loksins, loksins á
völlinn að horfa á keppnisleik. Og staðsetningin gat varla verið betri:
Bessastaðavöllur á Álftanesi í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Mótanefnd KSÍ
hefur vitaskuld viljað tryggja að þessi eiginlegi opnunarleikur
knattspyrnuársins 2020 væri með þátttöku Knattspyrnufélagsins Fram og að
viðstöddum forseta lýðveldisins, sem er tíður gestur á leikjum Álftnesinga.

Guðni forseti er góður gestgjafi og tók vel á móti Frömurum
– þó að teknu tilliti til sóttvarnarráðstafana. Vellinum hafði verið skipt upp
í tvö hólf: hólf 1 fyrir Framara og hólf 2 fyrir heimamenn. Þar á milli skyldi
engin blöndun eiga sér stað og neyddist forsetinn því til að kalla kveðjur sínar
yfir sóttvarnargirðinguna.

Forsetinn var klæddur forláta flíspeysu sem verndaði hann
fyrir vindstrekkingnum, vitandi sem er að á Álftanesi er aldrei logn og hið
metnaðarfulla aspabelti sem plantað hefur verið meðfram vellinum á enn hálfan
áratug eftir í að koma að fullu gagni. Á meðan geta vindbarðir áhorfendur þó
huggað sig við frábært útsýni þar sem Snæfellsjökull blasir við í fjarska. Nær
gefur að líta útigangshross þeirra heimamanna sem tryggja fæðuöryggið.

Fréttaritari Fram-síðunnar er eldri en tvævetur og veit að
gluggaveður í Reykjavík getur þýtt næðing í vesturbyggðum Garðabæjar og mætti
því aldrei þessu vant í peysi innan undir jakkanum. Það hefði félagi Valur
Norðri betur gert líka í stað þess að gerast tískunnar auðmjúkur þræll í vesti
sem var að sönnu smart en reyndist skjóllítil flík. Ég spái bronkítis í
fyrramálið.

Það er ekki gott að segja hvort Jón þjálfari sé kominn með
sitt uppáhaldsbyrjunarlið eða hvort hann sé enn að prófa nýja leikmenn. Ólafur
Íshólm stóð í markinu og var jafnframt með fyrirliðabandið. Miðvarðaparið voru
þeir Aron Kári og Arnór Daði Aðalsteinssynir (sitthvor Aðalsteinninn þó).
Ruglingslegt? Tjah, þetta er kynslóðin þar sem nánast allir byrja á A.

Jökull og Haraldur voru í bakvörðunum sitthvoru megin og
Unnar aftastur á miðjunni með Albert fyrir framan sig. Alex Freyr og Alexander
(við erum ekkert að grínast með þetta A-þema) á köntunum. Fred fremstur á
miðjunni og Þórir efstur uppi. Þetta er fínt lið og bekkurinn líka vel
skipaður.

Álftnesingar eru höfðingjar heim að sækja. Sjoppan í
farsóttarhólfi 1 var prýðileg. Kaffið með ómældri ábót og hamborgarinn sem
Þorkell Gunnar, íþróttafréttamaður á frívakt fékk sér var girnilegur með
þverhandarþykkum gúrkusneiðum. Háskólarokk miðaldrafólksins glumdi í
hljóðkerfinu með úrvali af helstu hitturum The Offspring. Hvers vegna fékk Bob
Dylan Nóbelinn en Dexter Holland ekki?

Álftnesingar eru tveimur deildum neðar en Framliðið og það
sást strax frá fyrstu mínútu. Jón Sveinsson hefur greinilega látið sína menn
lyfta vel í vetur. Framarar, í hvítu varabúningunum aldrei þessu vant, voru
ekki bara leiknari heldur líka umtalsvert sterkari en andstæðingarnir. Lítið
þurfti til að setja vörn Álftnesinga í uppnám, einkum voru hornspyrnur vel til
þess fallnar. Fyrsta markið kom með þeim hætti á 19. mínútu þegar Alexander
potaði knettinum inn eftir þvögu þar sem heimamenn náðu ekki að hreinsa frá.
Þetta hefði ekki mátt gerast mikið síðar fyrir vesalings Val Norðra sem stóð
stjarfum með sultardropann á nefinu, en gat nú seilst í markafleyginn sem hafði
að geyma úrvalsviský, kornungan Ardbeg.

Tíu mínútum síðar kom mark númer tvö. Illu heilli hafði
fréttaritari Fram-síðunnar ákveðið að bregða sér á salernið og var að villast í
rangölum hinnar alræmdu sundlaugar þeirra Álftnesinga sem knésetti sveitarfélagið
og færði undir ok Arnarnessvaldsins á árunum upp úr hruni. Samkvæmt skáldlegum
endursögnum vitna stakk Fred hinn brasilíski alla Álftanessvörnina af sér,
vippaði yfir Hörð markvörð (sem lék nokkra leiki fyrir okkur hér um árið) í
stöngina en skoraði síðan úr frákastinu. 0:2, nýr sopi og maðurinn í vestinu
fór að ná upp kjarnhita á ný.

Flott samspil beint af æfingasvæðinu gaf þriðja markið,
þegar Alex brunaði upp kantinn, sendi fyrir á Alexander sem áframsendi á Fred
sem afgreiddi boltann fallega í bláhornið af góðu færi. Íþróttafréttamenn
Stöðvar tvö sport hafa væntanlega tryllst í útsendingunn. Leikurinn var enda
sýndur beint, sem er frábær nýting á ljósleiðara. Undir lok fyrri hálfleiks jók
Alexander svo muninn í fjögur mörk með góðum skalla.

Þegar hér var komið sögu sáu leikmenn Fram að rétt væri að
taka fótinn af bensíngjöfinni ef mennirnir með markafleyginn ættu að eiga
nokkra von til þess að komast akandi heim. Gunnar og Tryggvi Snær (nýjasta
viðbótin við leikmannahópinn) komu inn fyrir Alex og Aron. Tíu mínútum síðar
ákváðum við að jafna leikinn enn frekar þegar Haraldur nældi sér í gult spjald
fyrir brot úti á miðjum velli. Það hefði lítið komið að sök nema í ljósi þess
að hann hafði fengið annað slíkt spjald í fyrri hálfleiknum fyrir að láta
sparka sig niður á vítateigslínu.

Tíu á móti ellefu komst leikurinn í meira jafnvægi. Framarar
sóttu ívið meira en sköpuðu sér fá dauðafæri. Hlynur var settur inná fyrir
Alexander til að bregðast við rauða spjaldinu og síðar í leiknum fékk Hilmar
nokkrar mínútur til að láta ljós sitt skína. Fátt bar þó til tíðinda og leiknum
lauk með þægilegum fjögurra marka sigri okkar manna.

Næsti leikur er eftir slétta viku og aftur í bikarnum. Þá
verður leikið gegn Haukum á Völlunum í Hafnarfirði, sem rómaðir eru fyrir
veðursæld. Alma Möller mælir með sólarvörn 50 og að innbyrða nægan vökva að
morgni leikdags til að vinna gegn ofþurrkun.

Stefán Pálsson

Á döfinni

Mán. 3. ágúst  kl. 17:00  FRAM – Vestri Frestað
Lengjudeild karla Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 14:00  FRAM – Fjarðab/Höttur/Leiknir F. Frestað
2. deild kvenna Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 16:00  Keflavík – FRAM Frestað
Lengjudeild karla Keflavíkurvöllur

Samstarfsaðilar