Knattspyrnufélagið FRAM

Ritblý

Það gerðist ekkert á Íslandi frá 25. mars til 9. maí árið
1974. Töflur yfir íþróttaúrslit eru brotakenndar, alfræðirit hafa frá litlu að
segja jafnvel sjálf Wikipedia hefur enga atburði frá þessu tímabili að geyma.
Þekkir hún þó býsna margt og jafnvel Þorvald Gylfason. Ástæðan er einföld: það
var prentaraverkfall í landinu. Engin dagblöð voru gefin út. Saga sem ekki er
rituð er dæmd til að gufa upp.

Fyrr í kvöld má segja að Framsíðan hafi upplifað sitt
prentaraverkfall – sem skapa mun eyðu í sameiginlegar minningar Framara og gera
sagnfræðingum framtíðarinnar gramt í geði. Við erum kannski ekki að tala um
áfall á borð við bruna handritanna í Kaupmannahöfn árið 1728, en ergilegt er
það þó. Fréttaritarinn klúðraði sem sagt því eina verkefni sem ekki mátti
klikka – að mæta með nothæfan penna.

Fréttaritari án penna er eins og þorskur á þurru landi – og
það þorskur sem engu að síður þarf að skila af sér pistli. Ekki bætti úr skák
að engrar huggunar var að leita í markafleygnum góða, því sessunauturinn
sauðtryggi, Valur Norðri, var hvergi sjáanlegur. Væntanlega heima að steikja
medisterpylsu og stappa kartöflumús fyrir fjölskylduna eins og menn gera á
þriðjudagskvöldum.

Til að endursegja atburði fyrri hálfleiksins verður að grípa
til munnmæla, flökkusagna, þess örlitla párs sem hægt var að pína út úr annars
uppþornuðum pennanum og slitrótt sms-skeyti sem fréttaritarinn sendi sjálfum
sér í örvæntingu þess manns sem sér öll sund lokast.

Ekki auðveldaði verkefnið að Jón þjálfari stillti upp mikið
breyttu liði frá síðustu leikjum. Í tveimur fyrstu umferðum bikarkeppninnar má
heita að sterkasta lið hafi byrjað leik, en nú er Íslandsmótið hafið og leikið
stíft. Því var rökrétt að stjórinn notaði tækifærið til að hvíla lykilmenn og
gefa ungviðinu tækifæri. Sex leikmenn í byrjunarliði fæddust 1999 eða síðar.

Marteinn Örn Halldórsson fékk að spreyta sig á milli
stanganna og stóð sig vel, þótt sáralítið mæddi á honum. Unnar Steinn og Óli
Anton Bieltvedt voru miðverðir en Matthías Kroknes og Arnór Daði bakverðir.  Aron Kári, Andri Þór Sólbergsson, Már, Magnús
og Þórir voru á miðju og köntum en Aron Snær fremstur. Allt er þetta þó byggt á
munnmælum og nýtur ekki stuðnings ritheimilda, sem fyrr segir.

ÍR mun vera miðlungslið í þriðju efstu deild og tefldi víst
ekki fram sinni sterkustu sveit vegna meiðsla. Getumunurinn var því talsvert
áberandi. Framarar stjórnuðu spilinu en sköpuðu sér fá afgerandi færi. Það
litla sem Breiðholtsliðið leitaði fram á við náði þó að valda furðumiklum
taugatitringi í Framvörninni. Greinilegt að mannskapurinn er ekki vanur þessari
uppstillingu.

Um miðjan hálfleikinn náðu ÍR-ingar fágætri skyndisókn
(nánast sinni einu fyrir hlé) og skoruðu fyrirhafnarlítið mark, 0:1. Frömurum í
stúkunni var ekki skemmt. Þeim var líka frekar kalt, enda hálfhryssingslegt á
vellinum. Fréttaritarinn var í þunnum jakka, öðrum þræði út af prinsipinu: á
þessum tíma árs á maður að mæta léttklæddur á fótboltaleiki, annars hefur júní
sigrað og mennskan tapað. Tveimur sætum frá gaf hins vegar að líta
velmegunarlegan formann handknattleiksdeildarinnar í dúnúlpu. Þetta harpixlið
hefur ekkert að gera útundir bert loft!

Fréttaritarinn var rétt búinn að senda fjarstöddum Val
Norðra passív-aggressív skilaboð: „Fokk“ (sem þurfti reyndar að senda tvisvar,
þar sem leiðréttingarforritið breytti þeim fyrst í „Dökk“) þegar boltinn lá í
netinu hinu megin eftir sending Þóris og kröftugan sprett Arons Snæs sem setti
boltann í fjærhornið, 1:1. Valur fékk engin skilaboð um jöfnunarmarkið og hefur
vonandi svelgst á medisternum.

Fljótlega eftir markið meiddist Matthías, sem borið hafði
fyrirliðabandið. Hætt er við að hann verði eitthvað frá. En honum tókst þó að
stýra Zigga-zagga í lokin og það er jú aðalmálið.

Framarar héldu áfram að stýra leiknum og á 36. mínútu
skoraði Aron Kári úr þvögu eftir að ÍR-ingum mistókst að hreinsa frá eftir
nokkuð harða sóknarlotu Framara, 2:1.

Lítið annað bar til tíðinda það sem eftir lifði hálfeiks,
fyrir utan að Jón Sveinsson varð ævareiður yfir einhverju smábroti úti á miðjum
velli. Það er skemmtilegt með Jón hvað hann rýkur stundum upp að því er virðist
af sáralitlu tilefni en getur svo verið pollrólegur þegar allir aðrir fara á
háa c-ið.

Í hléi gæddu fréttaritarinn og sonur sér á gómsætum
hamborgurum. Undanvillingsbarnið var með Valstöskuna sína á bakinu og læddist
með veggjum, eflaust smeykur um að Framæskan myndi lumbra á sér og óviss um í
hvort liðið faðirinn myndi skipa sér. Á meðan tókst skrifaranum pannalausa að
hafa upp á Sigurði Inga Tómassyni sem gat grafið upp ritblý af gerðinni Stabilo
með hörkuna 2. Seinni hálfleik var borgið.

Marteinn markvörður mátti taka á honum stóra sínum fljótlega
eftir að seinni hálfleikur hófst, þar sem ÍR-ingar mættu mun sprækari til leiks
en í þeim fyrri. Framarar leiddu þó spilið sem fyrr en ógnuðu ekki að ráði. Á
65. mínútu var gerð þreföld skipting, þar sem Unnar, Þórir og Aron Snær fóru af
velli en Gunnar, Fred og sextán ára nýliði, Sigfús Árni Guðmundsson komu inn.
Gunnar átti eftir að verja vel í tvígang, Fred hélt knettinum vel í framlínunni
og Sigfús átti eftir að koma við sögu.

Nokkur þokkaleg færi fóru í súginn og bölsýnispésar fóru að
sjá fyrir sér jöfnunarmark og framlengingu. Þegar fimm mínútur voru eftir af
venjulegum leiktíma dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu – réttilega – þar sem
Magnús náði til knattarins andartaki á undan ÍR-markverðinum sem felldi hann.
Maggi féll ofan á markvörðinn sem meiddist og það vakti einhverjar föðurlegar
tilfinningar hjá aðstoðardómaranum sem sannfærði dómarann um að breyta úrskurði
sínum. Iss, okkur langaði ekkert í þetta víti hvort sem er.

Á lokasekúndum leiksins settu ÍR-ingar alla menn sína
framávið í örvæntingarfulltri tilraun til að jafna metin. Framarar unnu boltann
og sóttu hratt fram. Varamaðurinn Sigfús átti góða stungusendingu sem
varnarmaður Breiðhyltinga reyndi að komast inní og pota aftur á eigin markvörð
sem hugðist hreinsa fram, en skaut beint í Magnús sem kom aðvífandi… boltinn
skoppaði í átt að galtómu markinu þar sem okkar maður potaði honum í netið af
50 cm færi, rétt áður en lokaflautið gall. Tiltölulega þægilegur 3:1 sigur í
leik sem var lítið fyrir augað en gaf ungum leikmönnum mikilvæga reynslu.

Eftir þrjá leiki í bikarnum í ár er vandséð annað en að við
vinnum keppnina. Hverja viljum við í næstu umferð? Pant fá Fylki í Safamýrina.
Við gætum kallað það: bardagann um Hádegismóa eða eitthvað álíka sniðugt. –
Næsti leikur er hins vegar á Grenivík á móti Magna og þar á eftir gegn
Aftureldingu í Mosó. Ekki er von á leikskýrslum þaðan.

Stefán Pálsson

Á döfinni

Mán. 3. ágúst  kl. 17:00  FRAM – Vestri Frestað
Lengjudeild karla Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 14:00  FRAM – Fjarðab/Höttur/Leiknir F. Frestað
2. deild kvenna Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 16:00  Keflavík – FRAM Frestað
Lengjudeild karla Keflavíkurvöllur

Samstarfsaðilar