Knattspyrnufélagið FRAM

Lygarnar

Ekki treysta afgreiðslustúlkunni á veitingahúsinu Hrauni á
Ólafsvík, þrátt fyrir líflegt fas og sakleysislegt yfirbragð. Hún lýgur. Þegar
fréttaritari Framsíðunnar og skjaldsveinninn trúfasti Valur Norðri mættu móðir
og másandi, alltof skömmu fyrir leikinn mikilvæga á Ólafsvíkurvelli og spurðu
hversu löng bið væri eftir kvöldverði svaraði hún að pizzur gætu verið tilbúnar
á sex mínútum. Það var ekki satt. Mínúturnar voru nær því að vera tuttugu.
Afleiðingin varð móðir alls kappáts, þegar flatbökurnar sem báru það lýsandi
heiti „Kjöt“ komu á borðið.

Ólafsvíkingar halda í þá góðu íslensku hefð að nota
nautahakk á pizzur en að öðru leyti var uppistaða áleggsins mismunandi afbrigði
af unnum svínaafurðum. Þetta var étið á örskotsstundu og aðrir gestir
matsalarins sneru sér við í forundran þegar við félagarnir spruttum á fætur
mettir og sællegir fáeinum andartökum eftir að maturinn var á borð borinn.
Epísk söguljóð hafa verið samin um minni afrek.

Hálflamaðir af kjötsvima gengu fréttaritarinn og sessunautur
upp að hinu dáfagra vallarstæði Víkinga. Þar blasti við lygi númer tvö.
Samkvæmt mótaskrá KSÍ átti leikurinn að hefjast kl. 19:15, en dómari leiksins
flautaði til leiks kl. 19:08. Það voru því þegar um tólf mínútur liðnar af
kappleiknum þegar fréttaritarinn náði fyrst að munda penna sinn.

Enn er þó ótalin stærsta og ljótasta lygin: veðurspáin
sjálf. Það var sól og blíða í Reykjavík þegar Framarar lögðu land undir fót og
ekki minnkaði hún á Mýrunum, í Hnappadalssýslunni eða á sunnanverðu Snæfellsnesinu,
en á miðri Fróðarheiðinni tók skyndilega að þykkna í lofti, hitinn féll hratt
og það tók að blása. Léttklæddur fréttaritari í fína græna stuttermabolnum og
appelsínugula vestinu sínu sem var víst keypt í erlendu tískuhúsi þurfti að
fiska upp ullarpeysu og var samt örlítið napurt. Var huggum harmi gegn að Ólsarar
virða tilmæli Landlæknis og fundu rúmlega 60 manna stuðningssveit Framara stað
í sóttvarnarhólfi á skjólsælum stað en skulfu sjálfir í næðingnum.

Byrjunarlið Fram tók mið af meiðslum lykilmanna í síðustu
leikjum. Ólafur var vitaskuld í markinu en fyrir framan hann var varnarlínan
Jökull, Hlynur Atli, Arnór Daði og Haraldur. Var gaman að sjá Hlyn fyrirliða
snúa aftur í byrjunarliðið eftir meiðslin sem hann varð fyrir á dögunum. Unnar
var aftastur á miðjunni með Albert fyrir framan sig og þá Fred og Má á
köntunum. Alexander og Þórir voru í fremstu vigilnu.

Víkingar erum með gott og vel skipað lið. Miðvarðaparið er
öflugt en bakverðirnir örlítið veikari hlekkir. Nonni þjálfari hefur sýnt að
hann er snjall í að greina veikleika andstæðinganna og lagði greinilega upp með
að pressa framarlega á Víkingsliðið og sækja grimmt upp kantana. Það var gjöful
leikaðferð.

Eftir rétt um stundarfjórðungsleik kom stungusending inn á
Má sem lék bakvörð Ólsara grátt, spilaði sig í gegnum vörnina og þrumaði í
netið. Staðan orðin 0:1 og hin fjölmenna sveit Framara á pöllunum fagnaði vel.
Fréttaritarinn hefur margoft farið til Ólafsvíkur að horfa á fótbolta, en
aldrei séð viðlíka fjölda okkar fólks. Raunar voru Framarar nálega eins margir
á vellinum og heimamenn, sem er magnað. Vonandi er þetta enn ein
birtingarmyndin af þeirri jákvæðu bylgju sem er að myndast í kringum liðið, þar
sem jafnvel gamlir fýlupokar eins og sá sem þetta ritar hrífast með.

Heimamönnum gekk afleitlega að ná neinu spili af viti
mestallan fyrri hálfleikinn en Framarar pressuðu stíft og gerðu sig alltaf
líklega til að refsa fyrir minnstu mistök, þannig komst Alexander í hörkugott
færi eftir tæplega hálftíma leik eftir misheppnað samspil varnarmanna Víkings.
Á 35. mínútu áttu þeir Már og Fred fínan samleik sem nærri því lauk með marki.
Heimamenn voru í stökustu vandræðum og mátti lesa angist og skelfingu úr
andlitum þeirra í hvert sinn sem Fred brá á leik.

Fram fékk nokkur hálffæri í fyrri hálfleiknum en færri
dauðafæri. Á lokamínútunni jukum við hins vegar forskotið í 0:2 eftir frábæran
samleik Þóris og Fred sem lauk með bylmingsskoti þess síðarnefnda í markið.

Það voru kátir Framarar sem fylktu liði inn í íþróttamiðstöð
Snæfellsbæjar og gerðu skil kaffi sem stóð undir væntingum og rúmlega það.
Tveir af þremur Guðjónssonum voru mættir og gáfu frammistöðunni fyrir hlé bestu
meðmæli, sem er ekki amalegt frá þessum hörðu dómurum.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði á því að
Framarar voru fastir fyrir í vörninni og sóttu af krafti þess á milli. Strax í
blábyrjun mátti litlu muna að Már yki forystuna í þrjú mörk eftir fínan samleik
við Þóri, sem átti svo góðan skalla rétt yfir mínútu síðar.

Þegar um tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik tókst
heimamönnum hins vegar að splundra Framvörninni með vel útfærðri skyndisókn og
minnka muninn í 1:2, nánast upp úr engu. Mörk breyta leikjum er margtuggin
klisja, en sönn fyrir því. Við markið var sem lifnaði yfir heimamönnum en fát
komst á Framliðið. Tveimum mínútum síðar mátti minnstu muna að boltinn lægi í
Framnetinu á ný.

Næstu tíu til fimmtán mínúturnar áttu Víkingar allnokkrar
sóknir og Ólafur markvörður þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum. Á
þessum tíma fór að verða vart við hálsríginn alræmda, sem áður hefur verið
fjallað um í pistlum á þessum vettvangi. Ástæðan er sú að á Ólafsvíkurvelli er
vallarklukkunni komið fyrir á þeim sérkennilega stað að hún hangir utan á efri
stúku vallarins. Það þýðir að ef frá eru taldir varamenn beggja liða, sjá engir
á klukkuna, nema þeir sem sitja á neðra áhorfendasvæðinu og snúa sér í
hálfhring. Það er fyrst með því að hafa vallarklukku á slíkum stað að óathugull
áhorfandi áttar sig á því hversu oft í leik hann gjóar augunum að klukkunni.

Hilmar kom inn á fyrir Alexander á sjötugustu mínútu í varnarsinnaðri
skiptingu. Áhyggjufullir Framarar á pöllunum óttuðust þó að ekki væri nóg að
gert og þegar fimmtán mínútur lifðu af venjulegum leiktíma hripaði
fréttaritarinn í minnisbók sína að jöfnunarmark heimamanna lægi í loftinu.
Nokkrum mínútum síðar fór Fred meiddur af velli fyrir Magnús eftir ljótt brot
sem ekkert var þó dæmt á. Hann haltraði í leikslok og var með stóran ísmolasekk
bundinn við hnéð – en þetta er þó eflaust eitthvað sem snjall sjúkraþjálfari
getur púkkað upp á fyrir næstu helgi…

Við lok venjulegs leiktíma fór Þórir einnig meiddur af
velli, en þá hafði verið mjög af honum dregið síðustu tuttugu mínúturnar. Aron
Snær leysti hann af hólmi. Enn lifði þó nógu langur tími til að Víkingar fengju
eitt lokafæri en Ólafur varði vel.

Mikill fögnuður braust út við lokaflautið og Alex Freyr tók
að sér að leiða ziggi-zaggann þrátt fyrir að vera ekki á leikskýrslu (má það?)
Liðið má allt vera ánægt með frammistöðuna. Vörnin var gríðarlega öflug þrátt
fyrir þetta eina mark. Innkoma Hlyns var mikilvæg og Haraldur öflugur. Már var
gríðarlega vinnusamur, einkum framan af og Fred mjög ógnandi. Tólf stig eftir
fjórar umferðir er frábær árangur og gott veganesti í stærstu prófraun
sumarsins til þessa á móti Reykjavíkur Leikni í Sambamýri á laugardag.

Stefán Pálsson

Á döfinni

Mán. 3. ágúst  kl. 17:00  FRAM – Vestri Frestað
Lengjudeild karla Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 14:00  FRAM – Fjarðab/Höttur/Leiknir F. Frestað
2. deild kvenna Framvöllur
Lau. 8. ágúst  kl. 16:00  Keflavík – FRAM Frestað
Lengjudeild karla Keflavíkurvöllur

Samstarfsaðilar