Körfuknattleikslið Fram sem leikið hefur í 2. deild Íslandsmótsins í vetur leikur á föstudaginn til undanúrslita gegn Reyni frá Sandgerði. Liðið sem sigrar leikur svo til úrslita gegn sigurvegaranum úr viðureign Augnabliks og Leiknis og tryggir sér um leið sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili.
Lið Fram hefur sýnt góð tilþrif í vetur og náð mörgum góðum úrslitum á sínu öðru ári í 2. deildinni. Lengi vel stefndi allt í að liðið kæmist ekki í úrslitakeppnina. Tveir góðir sigrar í lokaumferðunum og hagstæð úrslit annarra leikja gerðu það þó að verkum að Framarar náðu markmiði sínu og tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni.
Í síðustu tveimur leikjum deildarinnar sigraði Fram annars vegar lið Reynis frá Sandgerði 74-69 í hörkuleik og hins vegar lið Álftaness 75-48. Í 8-liða úrslitum lagði Fram svo lið Mostra frá Stykkishólmi á útivelli 55-63. Lið Mostra var fram að viðureigninni við Framara ósigrað á þessu tímabili.
Það er óhætt að segja að lið Fram sé á mikilli siglingu um þessar mundir. Framarar eru því hvattir til að bruna beint úr Digranesinu að loknum handboltaleiknum, beinustu leið í íþróttahús Kennaraháskólans á föstudagskvöldið. Leikurinn hefst kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis.