Meistaraflokkur karla tók á móti liði Stjörnunnar í gær. Strákarnir okkar hafa ekki riðið feitum hesti í viðureignum þessara liða að undaförnu og því ljóst að um ramman reip var að draga. Strákarnir byrjuðu leikinn varfærnislega og var sýnilegt að mikið bjó undir í þessum leik. Liðið spilaði af skynsemi og gaf Stjörnumönnum í raun aldrei færi á sér að ráði. Fyrri hálfleikur var barningur út í eitt og strákarnir okkar fengu þó 1-2 færi sem hefðu mátt nýtast. Í seinni hálfleik var sama upp á teningnum, bæði lið börðust og var oft á tíðum stuttur spuninn í mönnum. Um miðjan hálfleikinn spólaði Tillen framhjá fjórum varnarmönnum Stjörnunnar og slapp í gegn en var felldur, rautt spjald og víti. Tillen fór sjálfur á punktinn en brást bogalistinn. Einum fleiri tóku strákarnir völdin færðu sig ofar á völlinn og það skilaði sér örfáum mínútum síðar þegar Almarr átti laglega rispu sem endaði með skoti sem markvörður Stjörnunnar varði vel og hver annar en Kristinn Ingi var mættur í frákastið og skoraði sitt 11. mark í sumar. Eftir markið bökkuðu strákarnir okkar full mikið og hleyptu Stjörnumönnum aftur inn í leikinn. Það var svo í uppbótartíma að Stjarnan náði að jafna eftir barning í teig okkar manna.
Sannarlega grátlegt að missa þennan leik niður í jafntefli en það verður þó að telja liðinu það til tekna að það barðist vel og hefði sannarlega átt sigur skilið.
Næsti leikur er á móti ÍA upp á Skipaskaga á sunnudag kl 16.
ÁFRAM FRAM!
Mynd á forsíðu: Eva Björk