fbpx
Fram-Valur-061212-e1354832998936

Sætur og sannfærandi sigur á Val

Karlalið FRAM í handknattleik batt í kvöld enda á fimm leikja taphrinu í N1-deildinni með sætum og sannfærandi sigri gegn erkifjendunum í Val, 28-25.  FRAM hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12, og var skrefinu á undan nánast frá upphafi til enda.

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur tóku FRAMARAR frumkvæðið í leiknum, náðu forystu sem alla jafna var tvö til þrjú mörk og höfðu eins og áður segir þriggja marka forystu í hálfleik eftir ævintýralegt mark Garðars Sigurjónssonar í þann mund sem leiktíminn rann út, 15-12.

Munurinn á liðunum hélst meira og minna sá sami allan síðari hálfleikinn og oft á tíðum brá fyrir glimrandi góðum töktum hjá FRÖMURUM.  Mestur varð munurinn fimm mörk upp úr miðjum síðari hálfleik og þótt Valsmönnum hefði tekist að minnka hann í tvö mörk, 23-25, var sannfærandi sigur aldrei í hættu.  Lokatölur urðu 28-25 og FRAMARAR höfðu þar með sætaskipti við Valsmenn, hafa nú hlotið 9 stig í deildinni og sitja í sjötta sæti.

Afmælisbarnið Stefán Baldvin Stefánsson átti skínandi góðan leik var markahæstur með 7 mörk, Jóhann Gunnar Einarsson og Garðar Sigurjónsson skoruðu sín 5 mörkin hvor, Sigurður Eggertsson skoraði 4 mörk gegn sínum gömlu félögum og Róbert Aron Hostert skoraði 3 mörk.  Þorri Björn Gunnarsson skoraði 2 mörk og þeir Ægir Hrafn Jónsson og Stefán Darri Þórsson skoruðu sitt markið hvor.
Magnús Erlendsson varði 7 skot í markinu og Björn Viðar Björnsson 3.
Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur í liði Vals með 7 mörk, Agnar Smári Jónsson skoraði 6 og Atli Már Báruson 5.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email