FRAMARINN Stefán Baldvin Stefánsson, sem hélt upp á afmælisdaginn sinn í síðustu viku með stjörnuframmistöðu gegn Val í N1-deild karla í handknattleik, var útnefndur leikmaður 11.umferðar deildarinnar í Morgunblaðinu.
Umfjöllun Morgunblaðsins er á þennan veg:
„Ég hefði nú viljað gera betur í undanförnum leikjum en ég var góður í gær (á fimmtudag) og það var rosalega gaman. Það hafa komið leikir þar sem ég hefði getað staðið mig betur,“ sagði Stefán Baldvin Stefánsson, hornamaður Fram, í samtali við Morgunblaðið í gær. Stefán er leikmaður 11. umferðar N1-deildarinnar hjá Morgunblaðinu eftir að hafa skorað 7 mörk í grannaslagnum á móti Val í Safamýrinni. Frömurum tókst þá að höggva á taphrinu undanfarinna vikna og sigruðu 28:25.
„Það var rosalega mikilvægt að vinna þennan leik og komast tveimur stigum frá Val. Við höfðum tapað þremur eða fjórum leikjum í röð þar sem botninn datt úr okkar leik í korter í hverjum leik og við töpuðum á því. Okkur tókst að halda haus nokkuð vel í gærkvöldi (á fimmtudagskvöld) þó okkur tækist aldrei að rífa okkur frá þeim.“
Skytturnar þrjár skaddaðar
Varla er ósanngjarnt að segja að lið Fram hafi valdið vonbrigðum það sem af er tímabili en liðið hefur unnið fjóra leiki af ellefu í deildinni og féll úr bikarkeppninni á móti 1. deildar liði Stjörnunnar. Ekki er þó hægt að horfa framhjá því að margir lykilmenn hafa glímt við meiðsli og þá er nærtækast að nefna þá Jóhann Gunnar Einarsson, Róbert Aron Hostert og Sigurð Eggertsson.
„Það verður bara að segjast að líkurnar á því að þessir þrír leikmenn meiðist á einhverjum tímapunkti eru miklar. Það er eitthvað sem við vitum að gerist en það er rosalega slæmt þegar þeir meiðast svona allir í einu,“ sagði Stefán léttur en benti á að félagið ætti unga leikmenn sem eru að verða öflugri og geta leyst menn af.
Haukar eru bestir
Ef horft er til þess að liðið hefur sjaldan verið fullskipað er þá nokkuð hægt að leggja almennilegt mat á getu Framliðsins fyrr en eftir áramót?
„Ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Ef allir eru með og allir eru heilir þá erum við með ógeðslega gott lið. Við spiluðum samt sem áður leik um daginn þar sem allir voru heilir en við vorum samt lélegir. Við höfum ekki verið mjög stöðugir og ég veit ekki hverju er um að kenna. Eins og komið hefur fram í flestum viðtölum við leikmenn og þjálfara deildarinnar þá er þetta svo jöfn deild. Haukar eru bestir en þar á eftir koma hin sjö liðin á svipuðum styrkleika,“ benti Stefán á.
Þekkir sín takmörk
Stefán er 31 árs gamall og átti meira að segja afmæli þegar sigurleikurinn á móti Val fór fram. Hann er menntaður íþróttafræðingur frá Laugarvatni en stundar nú nám í sjúkraþjálfun við HÍ. Stefán hefur í gegnum tíðina verið einstaklega óheppinn með meiðsli en segist ekki hafa þurft að kvarta á þessu tímabili.
„Ég er heill og það hefur verið lítið um meiðsli hjá mér á tímabilinu. Maður er farinn að vera skynsamari og huga meira að fyrirbyggjandi þáttum en áður. Maður var lítið í því fyrir nokkrum árum og nú þekkir maður sín takmörk,“ sagði Stefán Baldvin.