fbpx
Fram-ÍR-201012d1-e1355434112635

FRAM vann ÍR og tryggði sér sæti í deildarbikarnum

FRAM vann í kvöld sætan sigur á ÍR í Austurbergi, 34-30, lyfti sér þar með upp í fjórða sæti N1-deildar karla í handknattleik og verður meðal þátttakenda í deildarbikarkeppni HSÍ seint í janúar.

ÍR-ingar hófu leikinn í kvöld af nokkrum krafti og komust í 5-1, en vel útfærð og hljómmikil leikhlésræða Einars þjálfara Jónssonar vakti FRAMARA hressilega til lífsins.  Þeir náðu undirtökunum í leiknum, jöfnuðu fljótlega metin og komust yfir, en áhlaup ÍR-inga undir lok fyrri hálfleiks tryggði þeim jafna stöðu í leikhléi, 15-15.
Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum síðari hálfleiks, allt þar til Björn Viðar Björnsson tók þá viðeigandi og mikilsmetnu ákvörðun að verja flest það sem á mark FRAMARA kom.  Mögnuð frammistaða hans lagði grunninn að sex marka forystu sem ÍR-ingar náðu að minnka niður í fjögur mörk áður en yfir lauk, 30-34.

Þetta er annar sigur FRAMARA í röð í N1-deild karla og þessi fjögur stig hafa lyft liðinu úr sjöunda sætinu upp í það fjórða.  Sigurinn í dag var afar dýrmætur, bæði upp á deildarbikarkeppnina að gera en ekki síður framhaldið í deildinni; ágæt staða í fjórða sæti er góður grunnur til að byggja á á nýju ári.

Sigurður Eggertsson og Jóhann Gunnar Einarsson voru markahæstur FRAMARA í kvöld með 8 mörk hvor, Þorri Björn Gunnarsson skoraði 5 mörk, Garðar Sigurjónsson og Róbert Aron Hostert skoruðu sín hvor 4 mörkin, Stefán Baldvin Stefánsson skoraði 3 mörk og Stefán Darri Þórsson skoraði 2 mörk.
Björn Viðar fór eins og áður segir mikinn á milli stanganna og varði 18 skot.  Magnús Gunnar Erlendsson varði 2 skot.
Sturla Ásgeirsson var langmarkahæstur í liði ÍR með 12 mörk.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0