Keppni hefst í Flugfélags Íslands-bikar kvenna, deildarbikarnum, í íþróttahúsinu í Strandgötu í Hafnarfirði í kvöld. FRAMstúlkur mæta þar liði ÍBV og verður flautað til leiks klukkan 20. Fyrri viðureign kvöldsins, leikur Vals og Stjörnunnar, hefst klukkan 18.15.
Ekkert hefur verið leikið í N1-deild kvenna síðan um miðjan nóvember, en hlé var gert á deildarkeppninni vegna þátttöku íslenska kvennalandsliðsins á EM í Serbíu nú í desember. FRAM lék sinn síðasta deildarleik 16.nóvember og hafði þá sannfærandi sigur á Selfyssingum, 33-14.
FRAM og ÍBV hafa mæst einu sinni í deildinni á þessari leiktíð; FRAM vann sætan sigur í Vestmannaeyjum þann 29.september, 27-21. Búast má við hörkuleik í Strandgötunni í kvöld og eru FRAMarar hvattir til að mæta, horfa á góðan handbolta og styðja FRAM til sigurs.
Sigurliðin í leikjum kvöldsins mætast í úrslitaleik FÍ-bikarsins í Laugardalshöll klukkan 17.30 á morgun.