fbpx

Stór og sannfærandi sigur á ÍBV

FRAM vann í kvöld stóran og afar sannfærandi sigur á ÍBV, 41-18, í undanúrslitum Flugfélags Íslands-bikarkeppni kvenna í handknattleik og mætir Val í úrslitaleik í Laugardalshöll á morgun.  Staðan í hálfleik var 22-14 FRAM í vil og leikur liðsins var vægast sagt stórgóður.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku FRAMstúlkur öll völd á vellinum, léku glimrandi fína vörn og fjölbreyttan og árangursríkan sóknarleik.  FRAM breytti stöðunni úr 3-3 í 16-8 upp úr miðjum fyrri hálfleik og hélt átta marka forystu meira og minna til loka fyrri hálfleiks.  Hafi Eyjastúlkur gert sér vonir um breytta tíð með blóm í haga í síðari hálfleik voru þær vonir slegnar út af bæði hratt og örugglega.  FRAMstúlkur slógu hvergi slöku við og hreinlega keyrðu yfir stöllur sínar frá Vestmannaeyjum; Eyjaliðið virtist leggja árar í bát tiltölulega snemma í síðari hálfleik og skoraði t.a.m. ekki mark fyrr en hálfleikurinn var ríflega hálfnaður.  Þá var staðan orðin 34-14 og úrslitin löngu ráðin.
Lokatölur urðu eins og áður segir 41-18 fyrir FRAM og sæti í úrslitaleiknum á morgun er því tryggt.  Varla var veikan blett á leik liðsins að finna í kvöld, vörnin var hreint frábær og skóp hvert hraðaupphlaupsmarkið á fætur, en þar að auki var ágætt flot í sóknarleiknum og mörkin í öllum regnbogans litum.

Ásta Birna Gunnarsdóttir var markahæst í liði FRAM í kvöld með 9 mörk, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir og Stella Sigurðardóttir skoruðu 6 mörk hvor og Marthe Sördal skoraði 4 mörk.  Steinunn Björnsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir skoruðu 3 mörk hver og þær Sunna Jónsdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Hekla Rún Ámundadóttir skoruðu sín hver 2 mörkin.
Guðrún Bjartmarz varði 13 skot í markinu.
Simona Vintila var markahæst í liði ÍBV með 8 mörk og virtist á löngum köflum eina Eyjastúlkan sem virtist hafa grun um hvað hún var að gera.  Florentina Stanciu, sem oftar en ekki hefur dregið Eyjavagninn, fann ekki fjölina sína og varði 8 skot.

FRAM mætir Val í úrslitaleik FÍ-bikarkeppninnar klukkan 17.30 á morgun í Laugardalshöll.  Valur vann Stjörnuna í hádramatískum undanúrslitaleik í kvöld 32-31 eftir tvíframlengdan leik og vítakastskeppni.
FRAM hefur vegnað ágætlega gegn Val í Höllinni síðustu misseri, vann úrslitaleik Eimskipsbikarkeppninnar 2011 með 25 mörkum gegn 22 og úrslitaleik sömu keppni árið 2010 með 20 mörkum gegn 19.

Mætum í Laugardalshöll og hvetjum FRAM til sigurs!

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email