fbpx
Fram-Valur-291212-FIurslit1-e1356731558759

FRAM er deildarbikarmeistari kvenna 2012!

FRAM tryggði sér í kvöld deildarbikarmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með sigri á Val, 28-24, í úrslitaleik Flugfélags Íslands-bikarkeppninnar í Laugardalshöll.  Staðan í hálfleik var 12-10, FRAM í vil.  Valsstúlkur voru fyrir leikinn í kvöld handhafar allra þeirra titla sem í boði eru í kvennahandboltanum á landinu bláa.

Nokkurt jafnræði var með liðunum lengstum í fyrri hálfleik, FRAMstúlkur þó ætið skrefinu á undan og sannast sagna líklegri til afreka.  Varnarleikur þeirra bláklæddu var til hreinnar fyrirmyndar, sóknarleikurinn á köflum ljómandi góður og stemmningin í liðinu var með ágætum.  Valsstúlkur gáfu sitt ekki eftir baráttulaust frekar en við var að búast, jöfnuðu metin í 10-10 skömmu fyrir leikhlé, en tvö síðustu mörk hálfleiksins voru ættuð úr Safamýri og staðan því 12-10 í hálfleik.

FRAMstúlkur höfðu ágæt tök á leiknum í síðari hálfleik, áttu svör við flestum áhlaupum Hlíðarendameyja og glöddu augu viðstaddra með góðum tilþrifum.  Forysta FRAM varð mest sex mörk þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 18-12, Valsstúlkur náðu að höggva lítið eitt í þá forystu en gerðu sig þó aldrei líklegar til að taka völdin.  FRAMstúlkur voru einfaldlega betri í kvöld og unnu sanngjarnan og sannfærandi sigur, 28-24.

Varnarleikur FRAMliðsins var eins og áður segir til eftirbreytni í kvöld, rétt eins og í gærkvöldi, og stöndug varnarlínan hélt ágætlega aftur af margreyndum og glúrnum Valsmeyjum.  Guðrún stóð sig ágætlega í markinu, varði nokkrum sinnum á dýrmætum augnablikum.  Sóknarleikurinn flaut ágætlega, keyrt var á Valsvörnina af fullum þunga og skotin skynsamlega valin.  Ánægjulegt var að sjá að það hafði lítil áhrif á FRAMsóknina þótt Valsstúlkur tækju upp á því að breyta varnarleiknum sínum á ögurstundu og jafnvel skella í hina rómuðu 3-3 vörn sína, svörin voru dregin upp úr hattinum af stakri snilld.

Elísabet Gunnarsdóttir og Ásta Birna Gunnarsdóttir voru markahæstar í liði Fram í kvöld með 8 mörk hvor og líklega er ekki á nokkurn hallað þótt Ástu Birnu sé hrósað sérstaklega fyrir frammistöðu sína.  Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 4 mörk, Stella Sigurðardóttir skoraði 3 mörk og þær Sunna Jónsdóttir og Sigurbjörg Jóhannsdóttir sín hvor 2 mörkin.  Þá skoraði Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 1 mark.  Guðrún Bjartmarz varði 15 skot í markinu.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var markahæst í liði Vals með 6 mörk og Dagný Skúladóttir skoraði 5 mörk.  Jenný Ásmundsdóttir varði 18 skot í markinu.

Mynd: Jóhann G. Kristinsson

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!