Deildarbikarmeistarar FRAM höfðu í kvöld betur gegn FH, 28-15, í N1-deild kvenna í handknattleik og hafa nú unnið sautján leiki í röð gegn Fimleikafélagsmeyjunum úr Hafnarfirði, þar af átta í FRAMhúsinu. Staðan í hálfleik var 12-5 FRAM í vil og þótt sigurinn hafi verið öruggur og sannfærandi var leikur þeirra bláklæddu fjarri því að vera gallalaus.
Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur, þar sem taktleysi og óðagot einkenndi leik beggja liða, small FRAMvörnin í sinn alkunna ham og hélt hafnfirskum handboltameyjum algjörlega í skefjum. FRAM breytti stöðunni úr 7-5 í 12-5 á síðustu mínútum fyrri hálfleiks, skoraði m.ö.o. fimm síðustu mörk hálfleiksins og hristi af sér heldur stirðlegar upphafsmínútur. Bættum varnarleik fylgdi ágæt markvarsla og meiri ró og skynsemi í sóknarleiknum.
FRAMstúlkur héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks, skoruðu fjögur fyrstu mörkin í síðari hálfleik og komust í 16-5. Þar með var endanlega orðið ljóst hvort liðanna stæði uppi sem sigurvegari og í raun snérist bróðurpartur síðari hálfleiks um að halda dampi og slaka hvergi á. Það gekk ljómandi vel, FH skoraði að vísu helmingi fleiri mörk í síðari hálfleik en þeim fyrri, en takturinn í FRAMliðinu var þó með ágætum í síðari hálfleik. Þrettán marka sigur var síst of stór, FRAMstúlkur létu reyna nokkuð á tréverkið á báðum endum vallarins og fóru á tiltölulega stuttum köflum illa að ráði sínu.
FRAM hefur sem fyrr fullt hús stiga í N1-deild kvenna, 20 stig eftir tíu leiki, og deilir toppsætinu með Val.
Elísabet Gunnarsdóttir var markahæst í liði FRAM í kvöld með 10 mörk og þær Stella Sigurðardóttir og Sunna Jónsdóttir skoruðu 5 mörk hvor. Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir og Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoruðu 2 mörk hvor og Hafdís Shizuka Iura, Hekla Rún Ámundadóttir, Marthe Sördal og Birna Berg Haraldsdóttir skoruðu 1 mark hver. Guðrún Bjartmarz varði 14 skot í markinu og Hildur Gunnarsdóttir varði 1 skot.
Elín Anna Baldursdóttir skoraði 5 mörk fyrir FH og Dröfn Haraldsdóttir varði 14 skot í markinu.