FRAM heimsækir Val í uppgjöri toppliðanna í N1-deild kvenna klukkan 15 á laugardag. Þessir fornu fjendur eru jafnir að stigum í efstu sætum deildarinnar, hafa báðir unnið alla tíu deildarleiki sína til þessa og ljóst að eitthvað verður undan að láta að Hlíðarenda.
FRAM og Valur hafa marga hildina háð í kvennahandboltanum á síðustu misserum og hafa skipt sælustundum systurlega á milli sín síðan í upphafi síðustu leiktíðar. Liðin hafa mæst átta sinnum á rúmu ári; tvisvar í deildinni, fimm sinnum í úrslitakeppninni og tvisvar í úrslitum deildarbikarkeppninnar, Flugfélags Íslands-bikarsins. FRAM hefur unnið fjóra þessara leikja og Valur fjóra. FRAM vann heimaleikinn gegn Val í deildinni á síðustu leiktíð 26-21, vann tvo leiki í úrslitakeppninni, 28-23 að Hlíðarenda og 18-17 í FRAMhúsinu, og fagnaði sætum sigri í úrslitaleik deildarbikarkeppninnar í Laugardalshöll milli jóla og nýárs, 28-24. FRAM hefur unnið tvo af þremur síðustu leikjum sínum gegn Val.
FRAM fagnaði síðast sigri í Vodafonehöllinni í fyrsta leik úrslitakeppni N1-deildarinnar á vormánuðum, 28-23. Valur hefur hins vegar unnið fjóra deildarleiki í röð gegn FRAM; síðasti deildarsigur FRAM að Hlíðarenda vannst í mars 2010, 27-24.
Þess má til gamans geta að FRAM og Valur hafa ekki gert jafntefli í kvennahandboltanum síðan í nóvember 2010, en þá skildu þau jöfn, 21-21, að Hlíðarenda. Leikar stóðu vissulega jafnir eftir venjulegan leiktíma í eftirminnilegum leik í úrslitakeppninni 2011, og reyndar var jafnt eftir tvær framlengingar sömuleiðis, en Valur tryggði sér sigur í vítakastskeppni og úrslitin eru því færð til bókar sem slík.
Stelpurnar okkar eru til alls líklegar á laugardaginn. Það er gríðarlega mikilvægt að við mætum og hvetjum þær til dáða, styðjum þær til sigurs á erfiðum útivelli. Sýnum stuðning okkar í verki!
Staðan í N1-deild kvenna (af hsi.is):
|