fbpx
Fram-FH-080113-e1358015661558

Fimm marka tap gegn Val að Hlíðarenda

Fram-FH-080113-e1358015661558

FRAM mátti sætta sig við fimm marka tap, 28-33, í uppgjöri toppliðanna í N1-deild kvenna í handknattleik í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda í dag.  Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, staðan í leikhléi 14-13 fyrir heimaliðið, en Valsstúlkur höfðu tögl og haldir í síðari hálfleik og höfðu að lokum nokkuð sannfærandi sigur.

Fyrri hálfleikurinn var eins og áður segir í nokkuð góðu jafnvægi í dag, ágætlega leikinn af beggja hálfu og eins marks munur í hálfleik, 14-13, gaf ástæðu til hóflegrar bjartsýni.  Strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks dró hins vegar í sundur með liðunum, Valsstúlkur sölluðu inn mörkum á meðan Jenný Ásmundsdóttir markvörður þeirra varði eins og andsetin.  Fimm mínútna kafli snemma í hálfleiknum réði í rauninni úrslitum, Valur breytti þá stöðunni úr 17-16 í 22-16, en á þessum kafla var FRAMliðið nánast óþekkjanlegt.  Varnarleikurinn, sem alla jafna hefur verið býsna stöndugur, var taktlítill og færanýtingin tæplega til útflutnings.  FRAMstúlkur verða þó seint sakaðar um að leggja árar í bát, þær hjuggu í tvígang ansi hressilega í forystu heimaliðsins, en vantaði að láta kné fylgja kviði.  Þar skipti nokkru að bölvanlega gekk að koma boltanum framhjá Jenný í Valsmarkinu og reynsluboltarnir í röðum Hlíðarendaliðsins sóttu í digra sjóði þegar á þurfti að halda.  Lokatölur urðu 33-28 fyrir Val og sigurinn býsna sanngjarn.

Stella Sigurðardóttir var markahæst í liði FRAM með 10 mörk og þær Elísabet Gunnarsdóttir og Ásta Birna Gunnarsdóttir skoruðu 5 mörk hvor. Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 4 mörk, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 3 og Sunna Jónsdóttir skoraði 1 mark.  Guðrún Bjartmarz varði 12 skot í markinu.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Þorgerður Anna Atladóttir skoruðu 9 mörk hvor fyrir Val, en markvörðurinn Jenný Ásmundsdóttir var besti leikmaður liðsins, varði 25 skot.

Næsti leikur FRAM í N1-deild kvenna er útileikur gegn HK á þriðjudaginn kemur, 15.janúar, en flautað verður til leiks í Digranesi klukkan 19.30.

Nr. Félag Leik U J T Mörk Nett Stig
1. Valur 10 11 0 0 384:211 173 22
2. Fram 10 10 0 1 327:206 121 20
3. ÍBV 11 8 1 2 288:240 48 17
4. HK 11 7 0 4 279:281 -2 14
5. Stjarnan 11 6 0 5 291:266 25 12
6. FH 11 6 0 5 263:280 -17 12
7. Haukar 10 4 0 6 222:254 -32 8
8. Grótta 11 3 1 7 228:259 -31 7
9. Selfoss 11 2 0 9 226:279 -53 4
10. Fylkir 11 1 0 10 193:319 -126 2
11. Afturelding 11 1 0 10 198:304 -106 2

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!