FRAMstúlkur komust á sigurbraut á nýjan leik í N1-deild kvenna í handknattleik í kvöld, en þá heimsóttu þær stöllur sínar í HK og fögnuðu sex marka sigri í Digranesi, 27-21.
FRAM var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, náði snemma forystunni og virtist ætla að gera út um leikinn tiltölulega snemma. Þær bláklæddu náðu sex marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn, en þá virtist slakna örlítið á klónni, færanýtingin varð lakari og þótt vörnin hafi lengstum verið ágætlega stöndug hefur hún á löngum köflum verið kraftmeiri. FRAMstúlkur héldu stallsystrum sínum úr Kópavogi í hæfilegri fjarlægð, lengstum þremur til fjórum mörkum, það sem eftir lifði leik og sigurinn var í raun aldrei í hættu.
Lokatölur urðu eins og áður segir 27-21 fyrir FRAM og Safamýrarmeyjar eru því enn tveimur stigum á eftir toppliði Vals í N1-deildinni, en Valur hafði betur gegn Haukum í kvöld, 31-26.
Elísabet Gunnarsdóttir var markahæst í liði FRAM með 9 mörk og lék vel, Birna Berg Haraldsdóttir og Sunna Jónsdóttir skoruðu 5 mörk hvor, Stella Sigurðardóttir skoraði 4 mörk, Steinunn Björnsdóttir 3 og Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 1 mark.
Guðrún Bjartmarz átti ágætan leik í markinu og varði 19 skot.
Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir var markahæst í liði HK með 4 mörk og þær Emma Sarðarsdóttir, Gerður Arinbjarnar og Jóna S. Halldórsdóttir skoruðu 3 mörk hver.
Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir varði 18 skot í markinu, mörg hver úr galopnum færum.
|