FRAM og Víkingur skildu jöfn, 1-1, í fyrsta leik B-riðils Reykjavíkurmótsins í knattspyrnu sem fram fór í Egilshöll í kvöld. Steven Lennon kom FRAM yfir á 49.mínútu, en Tómas Guðmundsson jafnaði metin fyrir Víkinga í þann mund sem venjulegum leiktíma lauk. Víkingurinn Aron Elís Þrándarson smellti svo aukaspyrnu í stöngina á marki FRAM í blálokin. FRAMarar léku einum færri síðasta hálftímann í leiknum eftir að Viktori Bjarka Arnarssyni var vísað af leikvelli fyrir sparka til eins Víkinganna.
Leikurinn í kvöld bar það með sér að liðin skortir leikæfingu, FRAMarar byrjuðu betur og gerðu sig nokkrum sinnum líklega á upphafsmínútunum áður en Víkingar tóku ágætan kipp um hálfleikinn miðjan. Þorvaldur þjálfari stillti upp varnarlínu sem samanstóð af Daða sem vinstri bakverði, Halldóri Hermanni hægra megin og Ólafi Erni og Kristjáni fyrirliða fyrir miðju. Haukur Baldvinsson var á vinstri vængnum, Hólmbert hægra megin, Almarr og Viktor Bjarki inni á miðri miðjunni og Kristinn Ingi og Lennon frammi, báðir reyndar mjög duglegir að koma tilbaka. FRAMarar náðu undirtökunum aftur þegar leið á fyrri hálfleikinn og voru líklegri til þess að skora, án þess þó að ná að skapa sér hreinræktað dauðafæri.
Haukur Baldvinsson var hársbreidd frá því að skora strax á upphafssekúndum síðari hálfleiks, skallaði hárfínt framhjá eftir hraða og snarpa sókn, og andartökum síðar voru FRAMarar komnir yfir. Steven Lennon fagnaði langþráðri endurkomu sinni með faglegri afgreiðslu, renndi boltanum framhjá Ingvari Kale í marki Víkinga eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina. FRAMarar voru í bílstjórasætinu næstu mínúturnar, Víkingar voru reyndar baráttuglaðir og duglegir, og það dró til tíðinda á 60.mínútu. Viktor Bjarki fékk þá að líta rauða spjaldið fyrir að sparka í átt að Víkingnum Ívari Erni Jónssyni og afskaplega litlar mótbárur bárust við þessari niðurstöðu Halldórs Breiðfjörð dómara. FRAMarar stóðu sig ágætlega manni færri, Jón Gunnar Eysteinsson kom inn á nokkrum mínútum eftir brottvikningu Viktors og gerði vel í að brúa bilið milli miðju og varnar og loka svæðum. Þeir bláklæddu átti nokkrar snarpar sóknir og hefðu með örlítilli heppni bætt við marki, en flest benti til þess að þeir myndu landa eins marks sigri. Víkingar gáfust þó ekki upp og Tómas Guðmundsson jafnaði metin á 90.mínútu, rétt í þann mund sem venjulegum leiktíma lauk, fékk sendingu út í teiginn eftir klafs og skoraði með góðu skoti. Minnstu munaði svo að Víkingum tækist að tryggja sér sigur í uppbótartíma, en Aron Elís Þrándarson tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og þrumaði boltanum í stöngina á marki FRAM. Lokatölur urðu því 1-1 og miðað við árstíma og gang mála í leiknum er ekki undan mörgu að kvarta.
Í raun er það óðs manns æði að leggja mat á frammistöðu leikmanna bæði á þessum tímapunkti og að teknu tilliti til þess að nokkrir þeirra léku “út úr stöðu”, enginn þeirra var gjörsamlega grunlaus eða úr takti, en þó má geta Ólafs Arnar, sem stýrði varnarleiknum af stóískri ró og kemur til með að reynast dýrmætur, Hauks Baldvinssonar sem sýndi lipra takta og Steven Lennon, sem lætur ekki fimm mánaða fjarveru slá sig út af laginu. Hann á eftir að reynast varnarmönnum andstæðinganna stöðugur höfuðverkur vel fram á haust. Kristinn Ingi barðist vel og gerði margt smekklega og Jón Gunnar stóð sig prýðilega eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Mynd: Fótbolti.net