fbpx
FramFylkir-e1358891872359

FRAM mætir Fylki í Egilshöll klukkan 19

FramFylkir-e1358891872359
FRAM mætir Fylki í öðrum leik sínum í B-riðli Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu klukkan 19 í kvöld í Egilshöll.  FRAM og Víkingur skildu jöfn í fyrstu umferðinni, 1-1, en Fylkir tapaði hins vegar fyrir Leikni, 0-3.

FRAMarar sýndu oft á tíðum ágæt tilþrif í leiknum gegn Víkingi og hefðu með örlítilli heppni fagnað sigri.  Steven Lennon skoraði mark FRAM snemma í síðari hálfleik, en Tómas Guðmundsson jafnaði metin fyrir Víkinga í blálokin.  FRAMarar voru þá orðnir manni færri inni á vellinum; Viktor Bjarki Arnarsson fékk að líta rauða spjaldið um miðbik síðari hálfleiks.

FRAM og Fylkir hafa skipt stigum býsna bróðurlega á milli sín undanfarin misseri, það hefur ekki gerst síðan 2008 að annað liðið hafi unnið tvo leiki í röð.  FRAM vann þá báða deildarleiki liðanna með sömu markatölu, 3-0.  Fylkismenn unnu fyrri deildarleik sinn gegn FRAM á síðustu leiktíð á Fylkisvelli 1-0, þar sem Davíð Þór Ásbjörnsson skoraði markið sem réði úrslitum, en FRAM svaraði hins vegar fyrir sig með sannfærandi sigri í Laugardalnum, 4-0.  Kristinn Ingi Halldórsson skoraði tvö marka FRAM í leiknum og þeir Sam Tillen og Almarr Ormarsson sitt markið hvor.
FRAM hefur unnið tvo af sex síðustu leikjum sínum gegn Fylki, tvisvar hafa liðin gert jafntefli og Fylkir hefur unnið tvo leiki.

FRAM og Fylkir mættust síðast í Reykjavíkurmótinu í janúar fyrir tveimur árum og skildu þá jöfn, 3-3.  Almarr Ormarsson, Guðmundur Magnússon og Daði Guðmundsson skoruðu mörk FRAM í leiknum; Guðmundur og Daði skoruðu mörk sín á þremur síðustu mínútum leiksins.

Leikur FRAM og Fylkis hefst eins og áður segir klukkan 19 í kvöld í Egilshöll og hvetjum við FRAMara til að mæta á svæðið til að skemmta sér og öðrum.  Rétt er að benda þeim sem ekki eiga heimangengt á að fylgst verður með leiknum á FRAMtístinu, sem fylgjast má með á forsíðu fram.is eða á Twitter.

Reykjavíkurmót karla í knattspyrnu – B-riðill

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!