FRAM tekur á móti Val í uppgjöri toppliða N1-deildar kvenna í handknattleik klukkan 19.30 á fimmtudag. Allt er lagt undir, liðin eru efst og jöfn í deildinni þegar fjórtán af tuttugu umferðum er lokið með 26 stig og þótt ekki megi vanmeta lið á borð við ÍBV og Stjörnuna er líklegra heldur en hitt að annar hinna fornu fjenda úr austurhluta höfuðborgarinnar hampi deildarmeistaratitlinum í lok leiktíðar. Úrslitin í leiknum á fimmtudag koma væntanlega til með að ráða nokkru þar um.
Þetta er þriðja viðureign FRAM og Vals á þessari leiktíð. FRAM vann rimmu liðanna í úrslitum Flugfélags Íslands-bikarkeppninnar milli jóla og nýars 28-24, en Valsstúlkur svöruðu hressilega fyrir sig í deildarleik um miðjan þennan mánuð, unnu þá á heimavelli 33-28.
FRAM hefur unnið tvo af þremur síðustu heimaleikjum sínum gegn Val, þann fyrri í deildinni og þann síðari í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. Valur vann í millitíðinni fyrri Safamýrarleikinn í úrslitakeppninni í fyrra og eina úrslitakeppnisleikinn sem hér fór fram í hitteðfyrra, en hefur ekki fagnað deildarsigri í þessu fróma húsi síðan í janúar 2011.
Liðin hafa mæst fimm sínnum í FRAMhúsinu síðan í janúar 2011, tvisvar í N1-deildinni og þrisvar í úrslitakeppninni. FRAM hefur unnið tvo þessara leikja og Valur þrjá. Liðin mættust hér síðast í úrsiltakeppninni í maí í fyrra og þá fagnaði FRAM eins marks sigri, 18-17.
FRAM og Valur hafa ekki gert jafntefli í deildarleik síðan í nóvember 2010, skildu þá jöfn, 21-21 í Vodafonehöllinni, og þau hafa ekki gert jafntefli í FRAMhúsinu síðan í febrúar 1999, 18-18. Marina Soueva var þá markahæst í liði FRAM og Guðríður Guðjónsdóttir næst markahæst, en Gerður Beta Jóhannsdóttir var markahæst í liði Vals!
Um mikilvægi leiksins þarf væntanlega ekki að hafa fleiri orð, nú er að duga eða drepast. Afskaplega fáar skýringar á fjarveru eru teknar gildar á fimmtudag, það er hreinlega ekkert annað í stöðunni en að mæta og hvetja FRAM til sigurs!
Staðan í N1-deild kvenna (af hsi.is):
|