FRAM mætir HK/Víkingi í Reykjavíkurmóti kvenna í knattspyrnu í Egilshöll klukkan 19 í kvöld. Fram situr í neðsta sæti riðilsins, án stiga eftir þrjár umferðir, en HK/Víkingur er í fjórða sæti með fjögur stig.
Þrátt fyrir marka- og stigaskort í fyrstu þremur leikjum Reykjavíkurmótsins þykir hið unga og efnilega lið FRAM hafa sýnt ágæta tilburði og baráttuanda. HK/Víkingur, sem varð í öðru sæti B-riðils 1.deildarinnar á síðustu leiktíð og lauk leik tólf stigum á eftir toppliði FRAM, gerði jafntefli við Þrótt í síðustu umferð Reykjavíkurmótsins, 1-1, og vann Fjölni í fyrstu umferðinni 4-0.
Flautað verður til leiks í Egilshöllinni klukkan 19 í kvöld og hvetjum við FRAMara til að mæta á svæðið og hvetja stúlkurnar til dáða.