Framherjinn Helgi Sigurðsson, sem á haustmánuðum var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokkslið FRAM í knattspyrnu karla, fékk í dag leikheimild með Safamýrarliðinu og verður því spilandi aðstoðarþjálfari FRAM í sumar.
Helgi, sem er 38 ára, hefur um árabil verið einn öflugasti framherjinn í íslenska boltanum. Hann hefur á gæfuríkum ferli leikið með Víkingum í tvígang, Stuttgart, T.B. Berlin, Stabæk, Panathinaikos, Lyn, AGF og Val og gengur nú til liðs við FRAM í fjórða sinn. Helgi skoraði 23 mörk fyrir FRAM í 36 deildarleikjum 1993 og 1994 og 13 mörk í 18 leikjum sumarið 2006 og afrekaskráin hans hér heima á Fróni hljóðar upp á 99 mörk í 205 leikjum í deild og bikar.
Helgi lék á sínum tíma 63 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim tíu mörk.