Meistaraflokkslið FRAM í handknattleik standa bæði í stórræðum á laugardag. Kvennaliðið heimsækir Selfoss klukkan 13.30 og karlaliðið fær Hauka í heimsókn klukkan 16.
Leikur Selfoss og FRAM í þessari lokaumferð N1-deildar kvenna kemur væntanlega ekki til með að breyta neinu varðandi stöðu liðanna tveggja í deildinni. FRAM getur reyndar náð Val að stigum, en nær þó aldrei að hirða toppsætið af Hlíðarendaliðinu sem þegar hefur verið krýnt deildarmeistari. ÍBV er fimm stigum á eftir FRAM í þriðja sæti og breytingar á stöðu þriggja efstu liðanna kemur því ekki til.
Selfoss situr í níunda sæti, er tveimur stigum á eftir Haukum, liðin unnu sitt hvora innbyrðisrimmuna á útivelli með tveggja marka mun þar sem Selfoss skoraði 27 mörk í Hafnarfirði en Haukar skoruðu 23 mörk á Selfossi. Haukar mæta Fylki í lokaumferðinni, en Fylkisliðið situr í botnsæti deildarinnar og hefur aðeins unnið leik á leiktíðinni.
FRAM tekur á móti Haukum í N1-deild karla klukkan 16 á laugardag og getur með sigri náð FH-ingum að stigum. FRAM og FH standa jöfn í tveimur innbyrðisviðureignum sínum á leiktíðinni og mætast í gríðarlega mikilvægum leik næstkomandi fimmtudag. Haukar hafa sex stiga forystu á toppi deildarinnar og geta því tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Safamýri á laugardag. Haukar hafa unnið báða leiki sína gegn FRAM til þessa, þann fyrri með sjö marka mun og þann síðari með eins marks mun.