FRAM heimsækir í kvöld FH í N1-deild karla í handknattleik og þar ráðast úrslitin í baráttu þessara liða um annað sætið í deildinni. FRAM og FH mætast í undanúrslitum úrslitakeppni N1-deildar karla, sem hefst 13.apríl, og komi til oddaleiks í þeirri rimmu fer hann fram á heimavelli liðsins sem fagnar sigri í kvöld. Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur og unnið sinn hvorn leikinn, en markatala FRAM er talsvert betri og okkar mönnum nægir því jafntefli í kvöld til að tryggja sér silfursætið.
FRAM og FH hafa eins og áður segir unnið sinn hvorn innbyrðisleikinn á þessari leiktíð og hafa, merkilegt nokk, sótt sigrana sem gestkomendur. FRAM vann í Kaplakrika í byrjun október 29-24 og FH svaraði með sigri í FRAMhúsinu í lok nóvember, 31-26. Eftir þennan tapleik gegn FH hóf FRAMliðið sigurgöngu sem ekki sér fyrir endann á, liðið hefur unnið níu deildarleiki í röð og gerir kröftugt tilkall til silfursætisins. FH hefur hins vegar tapað tveimur af þremur síðustu leikjum sínum, gegn Akureyri og HK, og vann þann þriðja, gegn Aftureldingu, með eins marks mun.
FRAM hefur unnið þrjá af fjórum síðustu leikjum sínum gegn FH í Kaplakrika; vann eina leikinn sem liðin léku þar á þarsíðustu leiktíð og fyrri leikinn í Krikanum á síðustu leiktíð, auk sigursins í fyrsta leik liðanna á yfirstandandi leiktíð. FH hefur aðeins fagnað einum heimasigri gegn FRAM síðan í nóvember 2009.
Þegar litið er á ellefu síðustu viðureignir FRAM og FH gefur það góð fyrirheit; FRAM hefur unnið fimm þessara leikja, FH fimm leiki og einu sinni hafa liðin skilið jöfn.
Gera má ráð fyrir bráðskemmtilegum og spennandi leik í Krikanum og stuðningur áhorfenda skiptir höfuðmáli. Við hvetjum FRAMara til sjávar og sveita til að fjölmenna og láta vel í sér heyra. FH-ingar eru höfðingjar heim að sækja, ætla að opna húsið klukkan 18.30 og verða þá klárir með grillmat og aðrar kræsingar.
Staðan í N1-deild karla (af hsi.is):
|