FRAM vann afar sannfærandi sigur á Gróttu, 39-19, í fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð N1-deildar kvenna í handknattleik í FRAMhúsinu í kvöld. Staðan í hálfleik var 19-6 fyrir FRAM og eins og tölurnar bera með sér voru yfirburðir heimastúlkna talsverðir. Annar leikur liðanna fer fram í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á laugardag og með sigri þar tryggir FRAM sér sæti í undanúrslitum N1-deildarinnar.
Stella Sigurðardóttir skoraði fyrsta markið í leiknum í kvöld og kom FRAM yfir, Gróttustúlkur jöfnuðu metin jafnharðan, en þar með skildu leiðir. FRAMstúlkur skoruðu næstu níu mörk í öllum regnbogans litum, komust í 10-1 og léku við hvurn sinn fingur. Í raun var hvergi veikan blett á leik liðsins að finna, vörnin var firnasterk og sóknarleikurinn árangursríkur með afbrigðum. Guðrún markvörður þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum framan af og það segir sína sögu að þrjú af mörkunum sex sem Grótta skoraði í fyrri hálfleik voru skoruð úr vítum. Vörnin varði sinn skerf af skotum, og vel það, og kom andstæðingunum í þess lags vandræði að skot sem láku í gegn misstu oftar en ekki marks.
Staðan í hálfleik var 19-6 og mörgum forystuliðum hefur reynst þrautin þyngri að halda einbeitingu eftir hlé þegar munurinn er slíkur. Ekki þurfti stuðningsfólk FRAM að hafa miklar áhyggjur af slíku, snjallar innáskiptingar héldu ákveðnum ferskleika og einbeitingu í liðinu og virtist litlu skipta þótt Stella væri tekin úr umferð. Mörkin komu á færibandi, varnarleikurinn var á svipuðum nótum og í fyrri hálfleik og öruggum sigri var siglt í höfn af öryggi og æðruleysi. Lokatölur urðu 39-19 og frammistaða FRAMstúlkna í þessum leik gefur góð fyrirheit fyrir laugardaginn. Flautað verður til leiks í Hertzhöllinni klukkan 13.30 á laugardag og er fólk hvatt til að fjölmenna og láta vel í sér heyra.
Mörk FRAM: Stella Sigurðardóttir 7 (1 víti), Ásta Birna Gunnarsdóttir 6, Marthe Sördal 6, Sunna Jónsdóttir 5 (1 víti), Birna Berg Haraldsdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 4, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 2, Hafdís Shizuka Iura 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Hekla Rún Ámundadóttir 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 7 (1 víti), Hildur Gunnarsdóttir 2.
Mörk Gróttu: Laufey Ásta Guðmundsdóttir 5, Sunna María Einarsdóttir 5 (3 víti), Unnur Ómarsdóttir 3, Steinunn Kristín Jóhannsdóttir 1, Jóhanna Ósk Snædal 1, Sigrún Birna Arnardóttir 1, Sóley Arnarsdóttir 1, Ásrún Lilja Birgisdóttir 1, Arndís María Erlingsdóttir 1.
Varin skot: Hlíf Ágústa Reynisdóttir 4, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 3.