FRAM tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum N1-deildar kvenna í handknattleik með sannfærandi sigri gegn Gróttu,. 31-20. FRAM vann einvígi liðanna 2-0 og mætir ÍBV í undanúrslitum, en Eyjastúlkur höfðu betur gegn FH í dag 25-19 og unnu þá rimmu einnig 2-0.
FRAMstúlkur tóku sér dágóðan tíma í að hífa sig í gang á Seltjarnarnesi í dag, Grótta hafði forystu fram yfir miðjan fyrri hálfleikinn og gerði margt ágætlega. Gróttuliðið er bráðefnilegt og spennandi verður að fylgjast með því í nánustu framtíð ef rétt er á spilum haldið, en eftir því sem á leikinn leið kom Akkilesarhællinn betur og betur í ljós; liðið skortir breidd. FRAMstúlkur fundu taktinn sinn betur og betur eftir því sem á leið og síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru FRAMstúlkur farnar að líkjast sjálfum sér, náðu forystu þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum og litu vart um öxl það sem eftir lifði leik. Staðan í hálfleik var 12-9 fyrir FRAM og eina áhyggjuefnið, ef áhyggjuefni skyldi kalla, var ójöfnuður í markaskorun. Stella skoraði átta af tólf mörkum FRAM í fyrri hálfleik og enginn annar leikmaður skoraði meira en eitt mark. Það átti þó eftir að snarbreytast.
Sjá mátti strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks að FRAMstúlkur voru vaknaðar til lífsins og ætluðu ekki að láta þennan leik renna sér úr greipum. Halldór þjálfari gerði viðlíka breytingar og í fyrri leiknum gegn Gróttu, skipti hornamönnunum út og lét rúlla ágætlega á mannskapnum. Varnarrleikurinn í síðari hálfleik var með ágætum og skóp hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru. Síðari hálfleikur var enn barnungur þegar ljóst var hvert stefndi, breiddin og ákveðnin skiluðu sínu een það verður ekki af Gróttustúlkum tekið að þær lögðu aldrei árar í bát, létu sterka andstæðinga sína hafa nokkuðu fyrir hlutunum. Lokatölur urðu 31-20, sannfærandi sigur og heilt yfir var frammisstaðan ágæt, ekki síst í síðari hálfleik.
Stella SIgurðardóttir var markahæst í liði FRAM með 11 mörk, Sunna Jónsdóttir skoraði 5 mörk og Hekla Rún Ámundadóttir skoraði 4 mörk. Birna Berg og Marthe Sördal skoruðu 3 mörk hvor, María Karlsdóttir skoraði 2 mörk og þær Ásta Birna Gunnarsdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Hafddís Shizuka Iura skoruðu 1 mark hver.