Stella Sigurðardóttir, sem verið hefur einn burðarásanna í sterku liði FRAM í N1-deild kvenna í handknattleik undanfarin ár og er Íþróttamaður FRAM 2012, er búin að skrifa undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið SönderjyskE. Stella gengur til liðs við danska félagið að yfirstandandi leiktíð aflokinni.
Stella, sem er 23 ára, hefur verið í hópi bestu leikmanna N1-deildar kvenna undanfarin ár og mikilvægur hlekkur í íslenska kvennalandsliðinu á uppgangstímum. Hjá SönderjyskE hittir hún einmitt fyrir landsliðsþjálfarann Ágúst Jóhannsson, sem réði sig til danska liðsins fyrir skemmstu.
Stella hefur allan sinn feril verið til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan og er frábær fulltrúi félagsins. Hún verður kvödd með söknuðu og stolti þegar þar að kemur, vondandi með gulllitaðan verðlaunapening í farteskinu, enda ber hún uppeldisstefnu FRAM fagurt vitni og á eftir að sóma sér vel í dönsku úrvalsdeildinni.