FRAM tekur á móti ÍBV í fyrsta leik undanúrslita N1-deildar kvenna í handknattleik í kvöld. Flautað verður til leiks í FRAMhúsinu klukkan 20 og er full ástæða til að hvetja stuðningsmenn og konur til að láta sér ekki nægja að sitja fyrir framan sjónvarpstækin á föstudagskvöldi, heldur fjölmenna í FRAMhúsið og taka virkan þátt í skemmtuninni.
Búast má við stórskemmtilegum leik í FRAMhúsinu í kvöld, og reyndar stórskemmtilegri rimmu tveggja frábærra handboltaliða, hversu löng sem hún verður. Þetta er veisla sem enginn handboltaáhugamaður vill láta framhjá sér fara og það má ekki gleyma því að stuðningurinn á pöllunum skiptir miklu máli.
Heimsókn í FRAMhúsið er ávísun á góða skemmtun og ekki þarf að hafa stórar áhyggjur af kvöldverði – pizzur verða seldar á vægu verði bæði fyrir leik og í hálfleik, auk annarra bragðlaukagæla.
FRAM hefur vegnað vel gegn ÍBV síðustu árin, hefur unnið þrettán viðureignir í röð gegn Eyjastúlkum þegar allt er talið; átta í deildinni, þrjá í úrslitakeppni, einn í bikarkeppni og einn í deildarbikarkeppni. FRAM vann deildarleikina tvo í vetur, 27-21 í Eyjum og 29-25 í FRAMhúsinu og hafði betur í Flugfélags Íslands-bikarkeppninni 41-18.
Í þessari sigurhrinu hefur FRAM unnið sex leiki í FRAMhúsinu, sex í Vestmannaeyjum og einn í hinu margrómaða íþróttahúsi við Strandgötu í Hafnarfirði.
FRAM vann einn þessara leikja með tveggja marka mun, 22-20 í Eyjum í febrúar 2007, tvo með þriggja marka mun og þrjá með þriggja marka mun. Stærsti sigurinn í þessari hrinu vannst í FRAMhúsinu í nóvember 2011, 41-17.
ÍBV hafði síðast erindi sem erfiði þegar liðin gerðu jafntefli í deildarleik í október 2006, 22-22. ÍBV vann báða leiki sína gegn FRAM keppnistímabilið 2005-2006; 35-18 í FRAMhúsinu og 24-20 í Eyjum. Það eru síðustu tapleikir FRAM gegn ÍBV. Hafa ber í huga í þessu samhengi að ÍBV sendi ekki lið til keppni í deild 2008, 2009 og 2010, en var þó með í bikarkeppninni 2010. Þá mættust einmitt ÍBV og FRAM í Vestmannaeyjum og hafði FRAM þá betur 40-18.
Stella Sigurðardóttir er markahæsti leikmaður FRAM í deildarkeppninni í vetur, skoraði 116 mörk í 20 leikjum, eða 5.8 mörk að meðaltali í leik. Elísabet Gunnarsdóttir er næst á blaði með 101 mark í 19 leikjum, eða 5.3 mörk að meðaltali í leik. Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 82 mörk í 20 leikjum, eða 4.1 mark að meðaltali í leik.
Simona Vintila skoraði mest fyrir Eyjastúlkur í deildinni, 109 mörk í 20 leikjum, eða 5.4 mörk að meðaltali í leik. Georgeta Grigore skoraði 101 mark í 20 leikjum, rétt rúm 5 mörk að meðaltali, og Guðbjörg Guðmannsdóttir skoraði 86 mörk, einu meira en Drífa Þorvaldsdóttir, eða 4.3 mörk að meðaltali í leik.
Ásta Birna (7/4)og Elísabet (5/6) skoruðu flest mörk gegn ÍBV í deildinni í vetur, 11 mörk hvor, og Stella (5/4) og Birna (2/9) skoruðu 9 mörk hvor. Sunna skoraði 5 mörk (4/1) og Guðrún Þóra ((3/1) og Hekla Rún (0/4) 4 mörk hvor. Sigurbjörg (1/0), Marthe (0/1) og Steinunn (0/1) skoruðu 1 mark hver.
Guðbjörg Guðmannsdóttir (5/6) og Georgeta Grigore (5/6) skoruðu 11 mörk hvor fyrir ÍBV gegn FRAM í deildinni og Simona Vintila skoraði 8 mörk (3/5). Drífa Þorvaldsdóttir (4/1), Ivana Mladenovic (3/2) og Ester Óskarsdóttir (0/5) skoruðu 5 mörk hver og Arna Þyrí Ólafsdóttir (1/0) skoraði 1 mark.
VIÐ HVETJUM STUÐNINGSMENN BEGGJA LIÐA TIL AÐ FJÖLMENNA OG LÁTA VEL Í SÉR HEYRA!
ÁFRAM FRAM!