FRAM hafði í kvöld betur gegn ÍBV, 25-24, í fyrsta leik undanúrslitarimmu N1-deildar kvenna í handknattleik og þufti, eins og við var að búast, að hafa talsvert fyrir sigrinum. Staðan í hálfleik var jöfn, 13-13. Stella Sigurðardóttir meiddist á upphafsmínútum síðari hálfleiks og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hildur Gunnarsdóttir átti ljómandi fína innkomu í markinu og varði oftar en ekki á ögurstundu.
Eyjastúlkur mættu glimrandi vel stemmdar til leiks í Safamýri í kvöld og höfðu frumkvæðið fram undir lok fyrri hálfleiks. Leikmenn ÍBV voru grimmir og áræðnir, óhræddir við að taka skot af dágóðu færi með alltof góðum árangri á sama tíma og hvert marktækifærið fór forgörðum hinum megin. Florentina varði eins og andsetin á fyrstu mínútunum og virtist skjóta FRAMstúlkum skelk í bringu, en til allrar lukku bráði ögn af henni þegar á leið. FRAMvörnin var í raun ekki algalin framan af fyrri hálfleiknum, kannski ögninni of mjúk á skothótanir, en hún þéttist eftir því sem á hálfleikinn leið, færði sig ögninni framar, og þá var ekki að sökum að spyrja. FRAM jafnaði metin þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik og komst í kjölfarið yfir í fyrsta sinn í leiknum, en ÍBV jafnaði metin áður en flautað var til hálfleiks, 13-13.
Strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks mátti sjá að FRAMstúlkur voru dottnar í sinn takt, þéttur varnarleikur skóp nokkur hraðaupphlaup og hollningin á liðinu var öll þéttari og betri. Reyndar var hoggið skarð í hópinn þegar Stella meiddist á fingri eftir nokkurra mínútna leik og kom ekki meira við sögu. Það segir hins vegar sitt um sterka liðsheild og góðan karakter í FRAMliðinu að það hélt sínu og vel það. Forystan var fljótlega orðin fjögur mörk og hún var þrjú og fjögur mörk meira og minna þar til örfáar mínútur voru til leiksloka og á þessum kafla bauð Birna Berg upp á nokkrar bombur af dýrari gerðinni. ÍBV náði að saxa á forskotið í lokin, en þó aldrei svo að spennustigið yrði óviðráðanlegt. Eyjastúlkur skoruðu síðasta markið í leiknum þegar um tíu sekúndur voru eftir og sigurinn var þá þegar tryggður, dísætur og nokkuð sannfærandi þegar allt kemur til alls.
FRAM hefur nú forystu í einvíginu 1-0, en það lið sem vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í sjálfum úrslitum N1-deildarinnar. Næsti leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á sunnudag og hefst klukkan 15.
Mörk FRAM: Birna Berg Haraldsdótir 7, Elísabet Gunnarsdóttir 6, Marthe Sördal 4, Stella Sigurðardóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Gunnarsdóttir 12.
Mörk ÍBV: Drífa Þorvaldsdóttir 6, Simone Vitale 5, Grigore Ggorgata 5, Guðbjörg Guðmannsdóttir 4, Ester Óskarsdóttir 3, Sandra Gísladóttir 1.
Varin skot: Florentina Stanciu 18.