FRAM fagnaði í kvöld fimm marka sigri gegn FH, 24-19, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik. Staðan í hálfleik var 12-10 fyrir FRAM og staðan í einvíginu er nú jöfn, 1-1. Frammistaða FRAMdrengja var til hreinnar fyrirmyndar í kvöld, varnarleikurinn frábær, markvarslan til eftirbreytni og sóknarleikurinn einkenndist af þolinmæði og yfirvegun.
Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins í FRAMhúsinu í kvöld, FRAMarar voru þó ávallt skrefinu á undan og um fyrri hálfleikinn miðjan hlömmuðu þeir sér í bílstjórasætið af fullum þunga. FRAM náði tveggja marka forystu á lokakafla hálfleiksins og hélt henni þar til flautað var til leikhlés, en þá var staðan 12-10.
Hafi einhverjir stuðningsmanna FRAM haft áhyggjur af kæruleysi eða sofandahætti sinna manna í síðari hálfleik voru þær áhyggjur slegnar út af borðinu af fagmennsku. Varnarleikurinn var magnaður, Magnús í ógurlegum ham á milli stanganna og lokunaraðgerðirnar höfðu góð áhrif á sóknarleikinn. FH-ingar kunna alveg að spila vörn, en FRAMsóknin nálgaðist verkefnið af rósemi og yfirvegun og heimamenn höfðu í raun tögl og haldir í þessum leik og lönduðu dýrmætum og sannfærandi sigri, 24-19.
Frammistaðan í kvöld slær svekkelsið frá laugardeginum í raun út af borðinu, þetta er FRAMliðið eins og við þekkjum það og vonandi verður framhald á. Vopnin voru slegin úr höndum FH-inga, beittustu sóknarvopn þeirra náðu sér ekki á strik gegn þéttum varnarmúrnum og það er afar jákvætt að halda sóknarþenkjandi Hafnfirðingum í nítján mörkum. Þeir skoruðu þrjátíu og sex mörk á heimavelli sínum fyrir þremur dögum.
Næsti leikur liðanna fer fram í Kaplakrika klukkan 19.30 á fimmtudag. Þar hefur FRAmliðinu farnast bærilega, vann m.a. fyrsta deildarleik þessara liða í Firðinum í október og þangað hljóta stuðningsmenn liðsins að fjölmenna með bjartsýni í huga.
Mörk FRAM: Jóhann Gunnar Einarsson 5, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Garðar Sigurjónsson 3, Róbert Aron Hostert 3, Ólafur Jóhann Magnússon 2, Sigurður Eggertsson 2, Ægir Hrafn Jónsson 2, Jón Arnar Jónsson 2, Sigfús Páll Sigfússon 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 19.
Mörk FH: Þorkell Magnússon 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Ragnar Jóhannsson 4, Andri Berg Haraldsson 3, Ásbjörn Friðriksson 2, Atli Rúnar Steinþórsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 16.