fbpx
Fram-Valur-egB

Eyjastúlkur fögnuðu sigri eftir framlengdan leik

Fram-Valur-egÍBV hafði sigur á FRAM, 19-18, í framlengdum þriðja leik undanúrslita N1-deildar kvenna í handknattleik í FRAMhúsinu í kvöld.  Staðan í hálfleik venjulegs leiktíma var 8-7 fyrir ÍBV og jöfn, 16-16, að sextíu mínútum afloknum.  Staðan í einvíginu er nú 2-1 fyrir FRAM og fjórði leikurinn fer fram í Eyjum klukkan 15 á laugardag.

Strax á upphafsmínútum leiksins í kvöld mátti sjá að brekkan yrði brött.  FRAM komst ekki blað fyrr en eftir u.þ.b. sex mínútna leik og þá voru farin forgörðum bæði góð færi og vítakast.  Liðin fóru sér hægt í markaskorun, hvorugt þeirra hafði upp á margt spennandi að bjóða í sókninni, en varnir voru hins vegar þéttar og markverðirnir í ágætum ham, einkum Florentina í marki ÍBV.  FRAM náði um stund forystu í fyrri hálfleik, en Eyjastúlkur spýttu í lófana á lokamínútunum og höfðu eins marks forystu þegar flautað var til leikhlés, 8-7.
Sami barningurinn var uppi á teningnum í síðari hálfleik, ákaflega þróttlítill og tilviljanakenndur sóknarleikur af beggja hálfu og allt í járnum.  Leikar stóðu jafnir þegar venjulegum leiktíma var lokið, 16-16, en FRAM átti reyndar aukakast í blálokin og framkvæmd þess var með undarlegra móti.  Aukakastið var tekið þegar tvær sekúndur voru eftir, en í stað þess að senda á álitlega skyttu létu FRAMstúlkur tímann renna út og áttu því ekki annarra kosta völ en að taka aukakastið beint.  Skot Birnu fór í varnarvegginn og framlenging blasti við.
FRAM hóf framlenginguna af nokkrum krafti, vörnin vann boltann í tveimur fyrstu sóknum Eyjaliðsins en hins vegar misfórust tilraunir til að nýta þessa vinnslu til góðra verka.  Dasaður sóknarleikurinn skilaði litlu og Eyjastúlkur þjörkuðu sig í gegnum þokkalega þéttan varnarmúr og fögnuðu að lokum sigri, 19-18.

Seint fer þessi leikur í sögubækur fyrir annað en þokkalega spennu.  Frammistaða liðanna var ekkert til að hrópa húrra fyrir, FRAMvörnin var líklega ljósasti punkturinn en hún þurfti reyndar ekki að glíma við neitt sérlega hugmyndaríkar sóknarúfærslur.  Guðrún varði nokkra mikilvæga bolta.  Sóknarleikur FRAM var með allra daprasta móti, flæðið hefur pompað í sjóinn einhvers staðar milli lands og Eyja sl. sunnudag og ef Stella er frátalin voru leikmenn lítið fyrir það að taka af skarið.  Stella meiddist í blálokin á fyrri hálfleik framlengingar, snéri sig á ökkla og kom ekki meira við sögu í leiknum.  Eyjaliðið átti engan glansleik þótt sigurinn hafi hafnað í fangi þess, nokkur marka liðsins voru af ódýrari gerðinni, en það ætti þó ekki að koma neinum á óvart að baráttan var til staðar.

Staðan í einvíginu er nú 2-1 fyrir FRAM, en það lið sem vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í úrslitarimmu N1-deildar kvenna.  Fjórði leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á laugardag og hefst klukkan 15.  Við bindum vonir við að leikurinn frá síðasta sunnudegi verði endurtekinn…í stórum og veigamiklum atriðum.

Mörk FRAM: Stella Sigurðardóttir 5, Elísabet Gunnarsdóttir 5, Sigurbjörg Jóhannesdóttir 3, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 2, Birna Berg Haraldsdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 14.
Mörk ÍBV: Simona Vintale 4, Grigore Ggorgata 4, Ester Óskarsdóttir 4, Drífa Þorvaldsdóttir 3, Guðbjörg Guðmannsdóttir 1, Rakel Hlynsdóttir 1, Ingibjörg Jónsdóttir 1.
Varin skot: Florentina Stanciu 21.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!