fbpx
Fram-UMFA-RAHb

Magnaður sigur í Krikanum | FRAM komið í 2-1 gegn FH

Fram-UMFA-RAHFRAM vann í kvöld afar sætan og dýrmætan sigur á FH í þriðja leik undanúrslitarimmu N1-deildar karla í handknattleik og hefur þar með tekið forystu í einvíginu, 2-1.  Lokatölur í Krikanum í kvöld urðu 24-23 fyrir FRAM, en staðan í hálfleik var jöfn, 10-10.  Þetta var ekki besti handboltaleikur vetrarins, en spennustigið var í hærra lagi og skemmtanagildið ágætt.

Leikurinn fór rólega af stað, FRAM skoraði tvö fyrstu  mörkin og staðan var 2-0 allt þar til tæpar ellefu mínútur voru liðnar.  Þá komust FH-ingar loksins á blað og eftir það var munurinn á liðunum aldrei meiri en tvö mörk.  Varnir beggja voru með ágætum, FRAMvörninni gekk ágætlega að halda aftur af beittustu sóknarvopnum FH-inga og Magnús var í miklum ham á milli stanganna.  Sóknarleikurinn hefur verið liprari, en hann dugði þó til.
Leikurinn var í járnum nánast frá upphafi til enda.  Staðan í hálfleik var eins og áður segir 10-10 og liðin tóku rispur sitt á hvað í síðari hálfleik.  Spennan á lokamínútunum var svakaleg og það verður að segja leikmönnum FRAM til hróss að þeir nálguðust verkefnið af stóiskri ró, sem reyndar var um það bil að æra nokkra vel stemmda stuðningsmenn.  FH hafði eins marks forystu, 20-19, þegar fimm mínútur voru til leiksloka, Stefán Darri jafnaði metin og Jóhann skoraði næstu tvö mörk, það fyrra úr víti.  Einar Rafn minnkaði muninn úr víti, sem aukinheldur kostaði tveggja mínútna brottvísun á Sigurð Eggerts, en Sigfús Páll skoraði í kjölfarið gríðarlega mikilvægt mark með frábæru gegnumbroti, 23-21.  FH-ingar klúðruðu næstu sókn og Stefán Darri setti punktinn fyrir ofan i-ið níu sekúndum fyrir leikslok, skaut úr þröngu færi í Daníel FH-markvörð og í netið.  Andri Berg skoraði rétt í þann mund sem leiktíminn rann út, en sigur FRAMara var þá þegar í höfn.

Sigurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur og ber FRAMliðinu fagurt vitni.  Spámenn og spekingar töldu sumir liðið ólíklegt til afreka eftir níu marka tap í fyrsta leiknum gegn FH, en annað hefur heldur betur komið á daginn.  Rétt eins og í öðrum leiknum í FRAMhúsinu var vörnin frábær í kvöld með Ægi Hrafn sem ókleifan hamarinn.  Magnús varði eins og berserkur, tók m.a. nokkra bolta úr opnum færum.  Sóknarleikurinn skilaði sínu þar sem Róbert gerði vel, Jóhann skilaði sínu og Sigfús Páll skilaði dýrmætum mörkum.

FRAM er nú komið í bílstjórasætið í einvíginu við FH,  hefur unnið tvo leiki og FH einn, og fjórði leikurinn fer fram í FRAMhúsinu klukkan 15 á sunnudag.  Þangað er vissara að mæta.

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!