Karlalið FRAM í handknattleik tryggði sér í dag sæti í úrslitarimmu N1-deildarinnar með sigri á FH í dramatískum háspennuleik af bestu gerð. Lokatölur í stappfullu FRAMhúsinu urðu 21-20 fyrir FRAM, sem þar með vann rimmuna gegn FH 3-1 og mætir Haukum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Haukar unnu ÍR-inga í dag með sömu markatölu, 21-20, og einvígið sömuleiðis 3-1.
Leiksins í dag verður minnst fyrir margra hluta sakir og hann verður FRÖMurum umtalsefni vel fram yfir kosningar. Allt var í járnum nánast frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu og svo sem fátt í leik liðanna sem kom á óvart. Varnar beggja voru firnasterkar, sóknarleikurinn hikandi í fyrri hálfleik og þegar flautað var til lekhlés var staðan jöfn, 9-9.
FRAM skoraði tvö fyrstu mörkin í síðari hálfleik og settist í bílstjórasætið, en FH-ingar gáfust ekki upp. Munurinn á liðunum var 1-2 mörk þar um tíu mínútur voru til leiksloka að FH-ingar jöfnuðu metin og komust reyndar yfir um tíma og spennan var um það bil að trylla lýðinn. FRAM náði forystunni aftur á lokamínútunum og eftir að sóknir höfðu misfarist á víxl unnu FRAMarar boltann þegar um tuttugu sekúndur voru eftir, marki yfir. Magnús Óli Magnússon tók sig hins vegar til og stal boltanum og skoraði, jafnaði metin þegar fimmtán sekúndur voru eftir, 20-20. FRAMarar tóku miðju á leifturhraða, brotið var á bæði Jóa og Sigga Eggerts en dómararnir, Anton og Hlynur, gerðu vel í að láta leikinn halda áfram. Tíminn virtist standa kyrr þegar boltinn barst til Robba sem þrumaði honum í netið úr ómögulegu færi þremur sekúndum fyrir leikslok…og allt ætlaði um koll að keyra. 21-20 fyrir FRAM. Þvílík dramatík…þvílíkt sigurmark. Leikurinn sjálfur gleymdist í móðukenndu móki á meðan leikmenn og stuðningsmenn ærðustu úr fögnuði.
FRAMarar hafa blásið á allar spár spekinga og sérfræðinga og eru komnir í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn. Eftir níu marka tap í fyrsta leiknum gegn FH töldu margir að dagskránni væri um það bil að ljúka, en það er öðru nær. FRAMdrengir eiga það fyllilega skilið að vera komnir í úrslit, það þarf gott handboltalið og sterka karaktera til að slá út eitilharða FH-inga. Liðsheildin skilaði sínu í dag, eins og í hinum sigurleikjunum tveimur gegn FH, en þó verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að Magnús Gunnar átti enn og aftur rífandi góðan dag í markinu, Óli var öryggið uppmálað í horninu og Róbert var hetja dagsins. Þeirri nafnbót deilir hann reyndar með eitilhörðum stuðningsmönnum FRAM sem fjölmenntu í dag og létu vel í sér heyra. Vel gert!
Mörk FRAM: Róbert Aron Hostert 6, Ólafur Jóhann Magnússon 5, Jóhann Gunnar Einarsson 5, Sigurður Eggertsson 3, Haraldur Þorvarðarson 1, Ægir Hrafn Jónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 16.
Mörk FH: Magnús Óli Magnússon 8, Einar Rafn Eiðsson 6, Ásbjörn Friðriksson 2, Logi Eldon Geirsson 2, Þorkell Magnússon 1, Ragnar Jóhannsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 15.