FRAM og Stjarnan hefja baráttuna um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik í FRAMhúsinu á fimmtudag, sumardaginn fyrsta. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2009 sem þessi ágætu lið kljást um þann stóra, en fyrir fjórum árum tryggði Stjarnan sér Íslandsmeistartitilinn með sannfærandi hætti. FRAM hefur hins vegar unnið fjóra síðustu leiki sína gegn Stjörnunni í úrsiltakeppni, tvo árið 2010 og tvo árið 2011.
FRAM stendur ágætlega að vígi þegar rýnt er í viðureignir þessara liða síðustu misseri. FRAM hefur unnið 11 leiki í röð gegn Stjörnunni; 8 í deild, 2 í úrsiltakeppni og 1 í bikarkeppninni. Þegar litið er til leikja liðanna frá keppnistímabilinu 2009-2010 liggja þar 13 sigurleikir FRAM og einn sigurleikur Stjörnunnar. FRAM vann deildarleikina tvo á yfirstandandi leiktíð, 26-23 í Mýrinni og 34-27 í FRAMhúsinu.
Stjarnan fagnaði síðast sigri gegn FRAM í október 2009, hafði þá betur í deildarleik í FRAMhúsinu 26-21. Stjarnan vann alla sex leiki sína gegn FRAM keppnistímabilið 2008-2009, þrjá í deild og þrjá í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Stjarnan hafði síðast sigur gegn FRAM í FRAMhúsinu í október 2009 og í Mýrinni í mars sama ár.
FRAM varð í öðru sæti N1-deildarinnar á þessari leiktíð og hlaut 36 stig, vann 18 leiki en tapaði tveimur, báðum gegn Val. Stjarnan varð í fjórða sæti með 26 stig, vann 13 leiki en tapaði sjö. Stjarnan tapaði í tvígang fyrir FRAM og HK og einu sinni fyrir Val, Gróttu og ÍBV.
Búast má við frísklegri og skemmtilegri úrslitarimmu FRAM og Stjörnunnar og fyrsti kaflinn verður skrifaður í FRAMhúsinu á fimmtudag. Þetta er leikur sem enginn sannur stuðningsmaður lætur framhjá sér fara.
FJÖLMENNUM OG LÁTUM VERKIN TALA! ÁFRAM FRAM!