fbpx
Sunna003b

Stjarnan fagnaði sigri í FRAMhúsinu og hefur tekið forystuna í úrslitaeinvíginu

Sunna003Stjarnan hafði betur gegn FRAM, 21-20, í fyrsta leik úrslitarimmu N1-deildar kvenna í handknattleik í FRAMhúsinu í dag.  FRAMstúlkur höfðu yfirhöndina lengstum í leiknum, voru einu marki yfir í hálfleik, 11-10, en Stjörnustúlkur reyndust sterkari á endasprettinum og hafa því tekið forystu í einvíginu 1-0.  Annar leikur liðanna fer fram í Mýrinni á sunnudag og hefst klukkan 15.

Leikurinn í dag var hnífjafn og spennandi, eins og við var að búast.  Stjarnan byrjaði betur og virtist til alls líkleg, en FRAMvörnin þéttist eftir því sem á leið og heimaliðið virtist átta sig betur og betur á því hvernig ætti að höndla stöðuna. FRAM náði yfirhöndinni upp úr miðjum fyrri hálfleik, reyndar kom þar athyglisverður kafli þar sem liðunum virtist algjörlega fyrirmunað að skora og færanýting FRAMliðsins á þessm kafla er svekkjandi þegar upp er staðið.  Vörnin var að svínvirka, hélt Stjörnustúlkum í skefjum, en hins vegar tókst ekki að nýta þennan kafla til góðra verka.  Staðan í hálfleik var 11-10 fyrir FRAM og ágætur gangur á liðinu.
FRAMstúlkur hófu síðari hálfleikinn ágætlega og héldu nokkuð vel aftur af stallsystrum sínum úr Garðabæ.  FRAM sat í bílstjórasætinu fram yfir miðjan síðari hálfleikinn, en hristi Stjörnuna þó aldrei almennilega af sér.  Stjörnustúlkur vöknuðu hressilega til lífsins á lokakaflanum, gerðu sóknarmönnum FRAM æ erfiðara fyrir og Esther nokkur Ragnarsdóttir, sem hafði setið á bekknum löngum stundum, hleypti nýju blóði í sóknarleikinn.  Lísa jafnaði metin, 20-20, þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka, bæði lið klúðruðu sóknum og Jóna Margrét kom Stjörnunni í 21-20 með þrumuskoti rúmum tuttugu sekúndum fyrir leikslok.  Síðasta sókn FRAM skilaði litlum árangri, Lísa tók skot úr erfiðri stöðu sem Sunneva varði.  Stjarnan fagnaði þvi eins marks sigri, 21-20.  FRAMstúlkur geta gert mun betur en þær gerðu í þessum leik og vita það líklega best sjálfar.  Það er engin ástæða til að leggjast í volæði, þetta var fyrsta orustan í stríðinu og nú er ekkert annað í stöðunni en að taka þá næstu.  Getan er til staðar.

Mörk FRAM: Elísabet Gunnarsdóttir 7, Sunna Jónsdóttir 6, Stella Sigurðardóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2, Ásta Birna Gunnarsdótti 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 9.
Mörk Stjörnunnar: Jóna Margrét Ragnarsdóttir 9, Esther Ragnarsdóttir 3, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 3, Rakel Dögg Bragadóttir 3, Sandra Sif Sigurjónsdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 16.

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!