fbpx
Sunna003b

Stjarnan fagnaði sigri í FRAMhúsinu og hefur tekið forystuna í úrslitaeinvíginu

Sunna003Stjarnan hafði betur gegn FRAM, 21-20, í fyrsta leik úrslitarimmu N1-deildar kvenna í handknattleik í FRAMhúsinu í dag.  FRAMstúlkur höfðu yfirhöndina lengstum í leiknum, voru einu marki yfir í hálfleik, 11-10, en Stjörnustúlkur reyndust sterkari á endasprettinum og hafa því tekið forystu í einvíginu 1-0.  Annar leikur liðanna fer fram í Mýrinni á sunnudag og hefst klukkan 15.

Leikurinn í dag var hnífjafn og spennandi, eins og við var að búast.  Stjarnan byrjaði betur og virtist til alls líkleg, en FRAMvörnin þéttist eftir því sem á leið og heimaliðið virtist átta sig betur og betur á því hvernig ætti að höndla stöðuna. FRAM náði yfirhöndinni upp úr miðjum fyrri hálfleik, reyndar kom þar athyglisverður kafli þar sem liðunum virtist algjörlega fyrirmunað að skora og færanýting FRAMliðsins á þessm kafla er svekkjandi þegar upp er staðið.  Vörnin var að svínvirka, hélt Stjörnustúlkum í skefjum, en hins vegar tókst ekki að nýta þennan kafla til góðra verka.  Staðan í hálfleik var 11-10 fyrir FRAM og ágætur gangur á liðinu.
FRAMstúlkur hófu síðari hálfleikinn ágætlega og héldu nokkuð vel aftur af stallsystrum sínum úr Garðabæ.  FRAM sat í bílstjórasætinu fram yfir miðjan síðari hálfleikinn, en hristi Stjörnuna þó aldrei almennilega af sér.  Stjörnustúlkur vöknuðu hressilega til lífsins á lokakaflanum, gerðu sóknarmönnum FRAM æ erfiðara fyrir og Esther nokkur Ragnarsdóttir, sem hafði setið á bekknum löngum stundum, hleypti nýju blóði í sóknarleikinn.  Lísa jafnaði metin, 20-20, þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka, bæði lið klúðruðu sóknum og Jóna Margrét kom Stjörnunni í 21-20 með þrumuskoti rúmum tuttugu sekúndum fyrir leikslok.  Síðasta sókn FRAM skilaði litlum árangri, Lísa tók skot úr erfiðri stöðu sem Sunneva varði.  Stjarnan fagnaði þvi eins marks sigri, 21-20.  FRAMstúlkur geta gert mun betur en þær gerðu í þessum leik og vita það líklega best sjálfar.  Það er engin ástæða til að leggjast í volæði, þetta var fyrsta orustan í stríðinu og nú er ekkert annað í stöðunni en að taka þá næstu.  Getan er til staðar.

Mörk FRAM: Elísabet Gunnarsdóttir 7, Sunna Jónsdóttir 6, Stella Sigurðardóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2, Ásta Birna Gunnarsdótti 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 9.
Mörk Stjörnunnar: Jóna Margrét Ragnarsdóttir 9, Esther Ragnarsdóttir 3, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 3, Rakel Dögg Bragadóttir 3, Sandra Sif Sigurjónsdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 16.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!