FRAM fagnaði í dag fimm marka sigri gegn Stjörnunni, 30-25, í öðrum leik liðanna í úrslitarimmu N1-deildar kvenna í handknattleik og jafnaði þar með metin í einvíginu, 1-1. Stjarnan byrjaði betur í leiknum í dag, en FRAM náði undirtökunum upp úr miðjum fyrir hálfleik og hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12.
Rétt eins og í fyrsta leik úrslitarimmunnar hafði Stjarnan yfirhöndina framan af fyrri hálfleik, náði mest fjögurra marka forystu og gerði margt ágætlega. FRAMstúlkur tóku sér sinn tíma í að trekkja sig í gang, en um leið og takturinn datt í samt lag var aldrei spurning um hvort liðanna stæði uppi sem sigurvegar. FRAM jafnaði metin í 8-8, komst í kjölfarið yfir og hafði forystu það sem eftir lifði. Staðan í hálfleik var eins og áður segir 15-12 fyrir FRAM.
FRAM var mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og sóknarleikurinn var ánægjulega árangursríkur. Varnartilburðum Stjörnustúlkna var svarað af fagmennsku og mörkin voru í öllum regnbogans litum. Gott flot var á sókninni og markaskorun dreifðist býsna vel, sem varð til þess að um síðari hálfleikinn miðjan var búið að slá áhyggjur stuðningsmanna um eftirgjöf út af borðinu. Vörnin var ágæt og Guðrún góð í markinu, mörkin 25 sem liðið fékk á sig segja ekki alla söguna þar sem talsverð eftirgjöf varð á lokamínútunum þegar úrslitin voru ljós.
Frammistaða liðsins í dag stakk sokki upp í þá sem haldið hafa því fram að FRAMliðið hnjóti um þröskuldinn þegar leikirnir skipta máli. Góður bragur var á liðinu þegar það hrökk í gang og engin ástæða til annars en hófsamrar bjartsýni fyrir leikina sem eru framundan. Sá næsti, þriðji leikurinn í þessari rimmu, fer fram í FRAMhúsinu á 105 ára afmælisdegi FRAM, miðvikudaginn 1.maí og hefst klukkan 17. Afmælisbarninu er reyndar fagnað með tveimur leikjum í tilefni dagsins, en FRAM mætir Haukum í öðrum leik úrslitarimmu karla klukkan 19.45 á afmælisdaginn.
Mörk FRAM: Stella Sigurðardóttir 7, Elísabet Gunnarsdóttir 5 (5 víti), Sunna Jónsdóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 4, Marthe Sördal 3, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 14 (2 víti).
Mörk Stjörnunnar: Rakel Dögg Bragadóttir 8 (2 víti), Hanna Guðrún Stefánsdóttir 7, Esther Viktoría Ragnarsdóttir 5, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 2, Þórhildur Gunnarsdóttir 1, Kristín Clausen 1, Sandra Sif Sigurjónsdóttir 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 7, Hildur Guðmundsdóttir 5.