fbpx
Fram-Valur-SEb

Frábær tveggja marka sigur gegn Haukum

Fram-Valur-SEFRAM vann í  kvöld tveggja marka sigur á Haukum, 20-18, í fyrsta leik úrslitarimmunnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.  FRAMarar hófu leikinn af miklum krafti, náðu snemma nokkuð öruggri forystu og leiddu í leikhléi 11-8.  Síðbúið áhlaup Hauka hleypti nokkurri spennu í leikinn í lokin, en sigurinn var þó býsna öruggur og fyllilega sanngjarn.

Stuðningsmenn FRAM hafa væntanlega sumir hverjir þurft að blikka augunum  nokkrum sinnum þegar þeir litu á markatöfluna um miðjan fyrri hálfleikinn að Ásvöllum í kvöld, staðan 6-2 FRAM í vil og sú forysta var ekki sótt af tilviljun.  Varnarleikur þeirra bláu var hrikalegur, hægði hressilega á Haukasókninni og Magnús í ágætum ham á milli stanganna.  Sóknarleikur FRAM var líflegur, færin valin af kostgæfni og þriggja marka forystu í hálfleik var síst of stór.
Haukarnir sýndu betri tilþrif í síðari hálfleik, Aron hefur greinilega messað hraustlega yfir hausamótunum á sínum mönnum í leikhlénu, sóknarleikurinn var hraðari og markvissari, en honum var sem fyrr mætt af fagmennsku.  Karakterinn í FRAMliðinu kom enn og aftur í ljós þegar heimamönnum tókst að nudda forystuna niður í eitt mark, 12-13.  Stóisk ró og þokkalegt öryggi skilaði þriggja marka forystu á örskotsstundu, Sigurður nokkur Eggertsson skoraði hrikalega dýrmæt mörk á lokakaflanum og í aðdraganda eins þeirra þurfti hann að fá flugtaksheimild hjá flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.  Það segir sína sögu að Haukarnir skoruðu tvö síðustu mörkin í leiknum, minnkuðu muninn úr 16-20 í 18-20.
Frábær tveggja marka sigur er staðreynd og það hlýtur að auka á bjartsýni og almenna ánægju að leikur FRAMliðsins var að flestu leyti mjög sannfærandi.  Varnarleikurinn var á löngum köflum hæfur sem kennsluefni og áræðið í sókninni til eftirbreytni.  FRAM hefur tekið forystu í einvíginu 1-0, stórt og mikilvægt skref, og næsti leikur liðanna fer fram í FRAMhúsinu klukkan 19.45 á miðvikudag.  Þann dag fagnar FRAM 105 ára afmæli sínu og heldur upp á daginn með tveimur handboltaleikjum; FRAM og Stjarnan mætast í þriðja leik úrslitarimmunnar í kvennaflokki klukkan 17.00

Mörk FRAM: Sigurður Eggertsson 6, Jóhann Gunnar Einarsson 5, Haraldur Þorvarðarson 4, Ólafur Magnússon 3, Róbert Aron Hostert 2.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 11, Björn Viðar Björnsson 1.
Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 6, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Elías Már Halldórsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 2, Þórður Rafn Guðmundsson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1, Freyr Brynjarsson 1, Tjörvi Þorgeirsson.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9, Giedrius Morkunas 2.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0