Karla- og kvennalið FRAM í handknattleik verða í afmælisskapi á heimavelli á 105 ára afmælisdaginn, 1.maí. Kvennaliðið mætir Stjörnunni í þriðja leik úrsiltarimmunnar um Íslandsmeistaratitilinn klukkan 17.00 og karlaliðið tekur á móti Haukum í öðrum leik Íslandsmeistaraeinvígisins klukkan 19.45. FRAMarar hefja daginn í afmæliskaffi í FRAMhúsinu klukkan 10.
Afmælisbarnið dafnar vel og full ástæða er til þess að leggja leið sína í Safamýrina til að fagna tímamótunum. Hátíðarhöldin hefjast með afmæliskaffi í FRAMsalnum klukkan 10 og handboltinn tekur svo öll völd þegar líður á daginn. Mikið verður um dýrðir og ganga má að því vísu að stemmning og skemmtun verði í hávegum. Stjörnufólk og Haukar munu væntanlega ekki láta sitt eftir liggja – það er pressa á stuðningsfólki FRAM að fagna afmælisbarninu og vonandi ánægjulegri niðurstöðu tveggja frábærra handboltaleikja.
Miðaverð á leikina á morgun er kr. 1.500.-, en miðar á báða leikina eru seldir saman á kr. 2.500.-. Forsala verður í FRAMhúsinu milli klukkan 11 og 13.
Hamborgarabúllan mætir á svæðið og fírar upp í öllum tiltækum grillum klukkan 18. Fyrirtaks borgarar og sérvaldi drykkir fást á sanngjörnu verði.
Þetta er dagskrá sem enginn FRAMari má láta framhjá sér fara. FYLLUM KOFANN – STYÐJUM OKKAR FRÁBÆRA HANDBOLTAFÓLK! Við eigum möguleika á að vinna tvöfalt í ár – stuðningurinn skiptir öllu máli!