FRAM náði í kvöld tveggja vinninga forystu í einvíginu við Hauka um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik, hafði sigur, 35-30, í epískum leik sem stóð yfir í 80 mínútur og verður lengi í minnum hafður. Staðan að afloknum venjulegum leiktíma var 25-25 og eftir fyrri framlengingu 27-27.
Ljóst mátti vera frá fyrstu mínútu leiksins í kvöld að spennandi og skemmtilegir hlutir væru í vændum. Fyrri hálfleikurinn var býsna jafn, Haukarnir jafnan skrefinu á undan og býsna fjörlegir, þeir þurftu á köflum að hafa ögn minna fyrir mörkunum sínum en FRAMarar, en baráttan og barningurinn voru af dýrari gerðinni og spennustigið hátt. Sóknarleikur FRAM hefur á stundum verið betri, Sigurður Eggertsson sá til þess að liðin héldust meira og minna í hendur og Haukar skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks þremur sekúndum áður en honum lauk, höfðu eins marks forystu í hálfleik, 13-12.
Framan af síðari hálfleik höfðu Haukar undirtökin, náðu um tíma fjögurra marka forystu og litu ágætlega út. FRAMarar hafa ekki lagt það í vana sinn að lognast út af og láta vaða yfir sig, varnarleikurinn þéttist eftir því sem á hálfleikinn leið og kunnuglegur baráttuandi gerði vart við sig. Forysta Hauka nuddaðist hægt og bítandi niður, en bölvanlega gekk að stíga skrefið til fulls, jafna metin og jafnvel komast yfir. Það tókst að lokum með dramatískum hætti, Stefán Baldvin skoraði 25.mark FRAM þegar þrjár sekúndur voru eftir og Haukar tveimur leikmönnum færri eftir mikinn hasar og darraðardans.
Framlenging tók við, enn var allt járn í járn og öllum tilraunum til yfirtöku svarað um hæl. Þegar framlengingu lauk var staðan enn jöfn, 27-27, og önnur framlenging staðreynd, nokkuð sem Birni Viðari í markinu virtist líka ágætlega. Hann varðist öllum tilraunum Hauka á upphafsmínútum annarrar framlengingar, vinir hans og félagar þökkuðu pent fyrir með því að salla inn mörkum og leikurinn sveiflaðist á sveif með FRAM. Bláir höfðu þriggja marka forystu þegar lokaorrustan hófst og þann mun voru þeir aldrei að fara að missa niður. Lokatölur urðu eins og áður segir 35-30 fyrir FRAM, ógurlega sætur og mikilvægur sigur og frammistaðan var liðinu og félaginu til sóma. Þvílíkur karakter.
Staðan í einvíginu er nú 2-0 fyrir FRAM og sá möguleiki er fyrir hendi að lokakaflinn verði skrifaður í Schenkerhöllinni að Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardag. Þar hefst þriðji leikur liðanna klukkan 15 að staðartíma.
Mörk FRAM: Sigurður Eggertsson 11, Róbert Aron Hostert 7, Jóhann Gunnar Einarsson 6, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Garðar B. Sigurjónsson 2, Ólafur Magnússon 2, Sigfús Páll Sigfússon 1, Haraldur Þorvarðarson 1, Jón Arnar Jónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 12, Björn Viðar Björnsson 9.
Mörk Hauka: Árni Steinn Steinþórsson 9, Gylfi Gylfason 6, Jón Þorbjörn Jóhannsson 4, Freyr Brynjarsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 4, Sigurbergur Sveinsson 3.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12, Giedrius Morkunas 3.