fbpx
Fram-Stjarnan-ABGfors

Stjarnan spillti afmælisgleðinni í FRAMhúsinu

Fram-Stjarnan-ABGStjarnan hafði í dag tveggja marka sigur á FRAM, 21-19, í öðrum leik liðanna í úrsiltum N1-deildar kvenna í handknattleik og Garðbæingar hafa þar með tekið forystu í einvíginu, 2-1.  Stjarnan hafði forystu í hálfleik, 13-8, og stóðst síðbúið áhlaup FRAMstúlkna, sem heilt yfir voru langt frá sínu besta.

FRAMstúlkur hófu leikinn í dag af nokkrum krafti, komust í 3-1 og virtust nokkuð vel stemmdar.  Stjarnan jafnaði hins vegar metin í snarhasti, 4-4, og tók upp frá því frumkvæðið í leiknum.  Varnarleikur FRAM var nánast óþekkjanlegur og döpur færanýting virtist slá þær bláu út af laginu.  Það segir sína sögu að eftir ellefu mínútna leik voru þrjú vítaköst farin í súginn, auk tveggja dauðafæra sem alla jafna hefðu skilað mörkum.  Stjörnustúlkur (lesist Skúli Gunnsteinsson) virtust vera búnar að kortleggja FRAMliðið ágætlega, buðu upp á árangursríkar aðgerðir á báðum endum vallarins.  Fyrri hálfleik lauk í raun ekki nógu snemma, Stjarnan jók forskotið eftir því sem á leið og hafði fimm maka forystu eftir hálftíma leik, 13-8.
Fátt virtist benda til þess framan af leik að FRAM myndi ógna forystu Stjörnunnar að ráði, en breytingar sem gerðar voru á varnarleiknum í fyrri hálfleik fóru þó hægt og bítandi að skila betri árangri og upp úr miðjum síðari hálfleik jafnaðist leikurinn talsvert.  FRAM fékk mýmörg tækifæri til að höggva í forystuna og jafnvel jafna metin á kafla þar sem vörnin var sjálfri sér lík, en færanýtingin var ekki upp á marga fiska.  Spennustigið hækkaði talsvert þegar munurinn var orðinn eitt mark, 18-19, og þrjár mínútur eftir.  Fátið tók þá völdin og Stjarnan skoraði tvö mörk í röð, pakkaði leiknum inn og skreytti hann með borða.  Lokatölur urðu 21-19 fyrir Stjörnuna, sem þar með hefur tekið forystu í einvíginu 2-1 og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á heimavelli sínum á föstudag.  Planið er hins vegar að það gerist ekki.
Stjarnan vann þennan leik á skynsemi og hörku, stúlkurnar úr Garðabæ voru grjótharðar og gengu eins og langt og ágætir dómarar leiksins leyfðu.  Þær náðu að slá taktinn að mestu leyti úr sóknarleik FRAM – og þetta er reyndar atriði sem FRAMstúlkur verða að laga.  Ef þær eru á réttu róli standa þær ágætlega í samanburði við Garðabæjarliðið og það er engin ástæða til annars en að stefna á – og treysta á – FRAMsigur á föstudag.  FRAMstúlkur vita það best sjálfar að þær voru fjarri sínu besta í dag og kvitta vonandi fyrir það í Garðabænum í næsta leik.

Mörk FRAM: Sunna Jónsdóttir 5, Stella Sigurðardóttir 5, Elísabet Gunnarsdóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2, Ásta Birna Gunnarsdóttir 2, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Gunnarsdóttir 3, Guðrún Bjartmarz 2.
Mörk Stjörnunnar: Hanna Guðrún Stefánsdóttir 7, Rakel Dögg Bragadóttir 7, Esther Ragnarsdóttir 5,Kristín Clausen 1, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 16.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0