fbpx
Fram-Stjarnan-sj2b

FRAM vann háspennuleik í Mýrinni | Úrslitaleikur á sunnudag

Fram-Stjarnan-sj2FRAM hafði í kvöld betur gegn Stjörnunni, 22-21, í fjórða leik úrslitarimmunnar um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Staðan í einvíginu er því jöfn, 2-2, og oddaleikurinn, úrslitaleikurinn um titilinn, fer fram í FRAMhúsinu klukkan 15 á sunnudag.

Leiksins í Mýrinni í kvöld verður væntanlega minnst fyrst og síðast fyrir miklar sveiflur og ævintýralegar lokamínútur, þar sem sigur FRAMstúlkna bókstaflega hékk á bláþræði.  Eins og í fyrri leiknum í Mýrinni byrjaði Stjarnan betur og hafði undirtökin framan af, en hægt og bítandi datt betri og betri taktur í FRAMlðið og kunnuglegir varnartaktar skiluðu hálfleiksforystu upp á tvö mörk, 11-9.
Stjarnan hóf síðari hálfleikinn á svipuðum nótum og þann fyrri og náði snemma tveggja marka forystu, 15-13.  Þá hrukku FRAMstúlkur í gírinn, algjörlega staðráðnar í að láta þetta ekki vera síðasta leik rimmunnar, og skoruðu fjögur mörk í röð.  Stjarnan jafnaði metin í 17-17 og enn tók við ljómandi góður FRAMkafli, fjögur mörk í röð og ljómandi góð staða þegar ellefu mínútur voru til leiksloka.  Þá tók hins vegar við dapur kafli þar sem hver mistökin ráku önnur og allt í einu var hlaupin glimrandi spenna í leikinn.  Hanna Guðrún minnkaði muninn í eitt mark, 20-21, þegar tvær mínútur voru til leiksloka og Guðrún Þóra svaraði með góðu marki, 20-22.  Kristín Clausen skoraði fyrir Stjörnuna þegar 24 sekúndur voru til leiksloka, eftir að FRAMstúlkur höfðu brugðist við pressuvörn með því að kasta  boltanum útaf, og varnartilraunir urðu til þess að markvörðurinn Guðrún Bjartmarz meiddist í þann mund sem Kristín skoraði.  Hún fór sárþjáð af velli, en nýjustu tíðindi eru sem betur fer þau að meiðslin eru ekki jafn alvarleg og óttast var í fyrstu.  Síðasti kaflinn í spennusögunni hafði þó ekki enn verið skrifaður, því FRAMstúlkum tókst að missa boltann frá sér um tíu sekúndum fyrir leikslok og Stjarnan átti lokasóknina.  Stöndugur varnarleikur skilaði því að uppskeran var aukakast, sem Jóna Margrét tók þegar leiktíminn var úti.  Boltinn small í varnarveggnum við ógurlegan fögnuð háværra og líflegra stuðningsmanna FRAM sem, rétt eins og stúlkurnar sjálfar, eiga heiður skilinn fyrir frammistöðu sína í kvöld.  Lokatölur urðu 22-21 fyrir FRAM, enn vinnast sigrarnir í úrslitaeinvíginu á útivelli en stefnan er að því verði snarsnúið á sunnudaginn.  Þá mætast FRAM og Stjarnan í hreinræktuðum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og það er leikur sem enginn sannur FRAMari lætur framhjá sér fara.

Leikur FRAM í kvöld var ekki gallalaus, en kaflar bæði í fyrri og síðari hálfleik voru þó ljómandi góðir og þegar liðið spilar eins og það gerði um miðbik hálfleikjanna beggja standast fáir því snúning.  Varnarleikurinn var lengstum í ágætu lagi, en stíflur mynduðust við og við í sókninni.  Ekkert var upp á baráttuna og grimmdina að klaga, aðgerðum Stjörnustúlkna var mætt af fullum þunga og skynsemin var við völd í rúmar fimmtíu mínútur.  Ekkert gefur ástæðu til annars en að mæta til leiks á sunnudaginn með bjartsýni og jákvæðni í huga.

Mörk FRAM: Elísabet Gunnarsdóttir 5, Stella Sigurðardóttir 5, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 4, Sunna Jónsdóttir 4, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Marthe Sördal 1, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Guðrún Bjartmarz 8, Hildur Gunnarsdóttir 1.
Mörk Stjörnunnar: Hanna Guðrún Stefánsdóttir 9, Esther Ragnarsdóttir 4, Jóna Margrét Ragnarsdóttir 3, Sólveig Lára Kjærnested 2, Kristín Clausen 2, Rakel Dögg Bragadóttir 1.
Varin skot: Sunneva Einarsdóttir 13.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!