fbpx
Fram-Haukar - haukaskot - fors

Haukar fögnuðu sigri í dramatískum leik | Fjórði leikurinn í FRAMhúsinu á mánudag

Fram-Haukar - haukaskotHaukar höfðu í dag betur gegn FRAM, 27-24, í þriðja leik úrslitarimmu N1-deildar karla í handknattleik og komu þar með í veg fyrir að FRAMarar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Schenkerhöllinni að Ásvöllum.  Haukar höfðu sex marka forystu í hálfleik,  18-12, en FRAM hleypti spennu í leikinn þegar þeir jöfnuðu metin fimm mínútum fyrir leikslok.

Leikurinn í dag var sveiflukenndur í meira lagi og FRAMdrengjum tókst að brydda upp á bæði versta og besta sem þeir hafa upp á að bjóða.  Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur tóku Haukar öll völd á vellinum, spiluðu hörkufína vörn og refsuðu fyrir minnstu mistök með urmul hraðaupphlaupsmarka og marka úr hornum, nokkru sem lítið hefur borið á í síðustu leikjum.  Forystan jókst jafnt og þétt og tíminn virtist líða á hraða snigilsins.  Þegar flautað var til hálfleks var munurinn sex mörk, 18-12, og fjöldi Haukamarkanna segir allt sem segja þarf um gang mála.  Haukar skoruðu 20 mörk í fyrsta leiknum að Ásvöllum og 21 mark í venjulegum leiktíma í öðrum leiknum í FRAMhúsinu.  Átján mörk í fyrri hálfleiknum í dag.
Fátt benti til þess á upphafsmínútum síðari hálfleiks að takturinn í leiknum væri að breytast, Haukarnir héldu FRÖMurum í hæfilegri fjarlægð og virtust hafa leikinn í hendi sér.  Þá kom hins vegar kafli þar sem FRAMarar sýndu flestar sínar bestu hliðar, skelltu í lás í vörninni og skoruðu í kjölfarið mörk í öllum regnbogans litum.  Staðan breyttist úr 21-15 í 22-21 á tíu mínútna kafla þar sem stemmningin var öll gestamegin og þegar fimm mínútur voru til leiksloka jafnaði Ólafur Magnússon metin með marki úr hraðaupphlaupi, 23-23.  Haukar reyndist hins vegar sterkari á lokamínútunum, náðu þá aftur að refsa grimmilega fyrir minnstu mistök og fögnuðu að lokum þriggja marka sigri, 27-24.

FRAMarar hafa oft leikið betur en þeir gerðu í dag, síðari hluta fyrri hálfleiks og framan af þeim síðari voru þeir varla með í prógramminu og svöruðu engan veginn ágengum og ákveðnum leik Haukanna.  Það snarbreyttist snemma í síðari hálfleik og frábæri kaflinn þar var næstum búinn að snarsnúa leiknum.  Á þessum kafla voru FRAMarar sjálfum sér líkir og það er þetta FRAMlið sem þarf og mun mæta til leiks á mánudag.  Þá fer fram fjórði leikurinn í þessu ágæta einvígi, hvar FRAM hefur forystu 2-1, og verður flautað til leiks í FRAMhúsinu klukkan 19.45.

Mörk FRAM: Róbert Aron Hostert 6, Sigurður Eggertsson 5, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Ólafur Magnússon 3, Jóhann Gunnar Einarsson 3, Elías Bóasson 2, Garðar B. Sigurjónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 9, Björn Viðar Björnsson 1.
Mörk Hauka: Gylfi Gylfason 7, Freyr Brynjarsson 6, Tjörvi Þorgeirsson 6, Sigurbergur Sveinsson 4, Jón Þorbjörn Jóhannsson 2, Adam Haukur Baumruk 1, Árni Steinn Steinþórsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 15.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email