fbpx
Árgangamót 2013 lið ársins

Árgangamót FRAM

Hið árlega Árgangamót FRAM í knattspyrnu var haldið í níunda sinn 8.maí í íþróttahúsi FRAM í Safamýri.  Mótið hefur líkt og sjálf lóan verið fastur liður í vorkomunni síðustu árin.  Eins og venjulega voru leikmenn 30 ára og eldri gjaldgengir í mótið.  Á mótinu leiða saman hesta sína leikmenn sem sumir hverjir hafa leikið með meistaraflokki FRAM og aðrir sem léku knattspyrnu í yngri flokkum en létu þar við sitja og sneru sér að öðrum krefjandi verkefnum í lífinu.

Þátttakendur í ár voru rúmlega fimmtíu í tíu liðum.  Leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu sáu um dómgæsluna og sýndu mismikla röggsemi.  Það skorti hins vegar ekkert upp á röggsemina þegar í sjálfan úrslitaleikinn var komið en þá hafði hinn reyndi dómari Gylfi Þór Orrason tekið við flautunni.

Til þess að gera langa sögu stutta voru það lið árganga 1963/65, 1968, 1980/81 og 1982 sem komust áfram úr riðlakeppninni og í undanúrslit.  Að lokum fór það svo að lið 1980/81 fór með sigur af hólmi.  Báru þeir sigurorð af margföldum meisturum 1968 árgangsins í bráðfjörugum úrslitaleik.

Árgangamót 2013

Lið 1980/81 bar sigur úr býtum.

Að mótinu loknu sameinuðust leikmenn í hinum glæsilega veislusal FRAM og gæddu sér á dýrindis grilluðu lambakjöti og tilheyrandi.  Skemmtileg dagskrá var frameftir kvöldi þar sem markahrókurinn og aðstoðarþjálfari FRAM Helgi Sigurðsson stýrði pub-quizi og sýndar voru svipmyndir úr bikarúrslitaleik FRAM-KR frá árinu 1989 svo eitthvað sé nefnt.  Þá fór einnig fram verðlaunaafhending.  Lið 1980/81 fór heim með glæsilegan bikar og venju samkvæmt stóð dómnefnd valinkunnra sparkspekinga fyrir vali á liði ársins, björtustu voninni og besta leikmanni mótsins.  Í lið ársins voru valdir Finnur Thorlacius, Þórhallur Víkingsson, Jóhann Wathne og Viðar Guðjónsson.  Viðar var valinn besti maður mótsins og Hergeir Elíasson var bjartasta vonin.

Á næsta ári verður haldið upp á tíu ára afmæli Árgangamótsins og uppi eru hugmyndir um að gera gott mót ennþá betra og að það verði sérstaklega glæsilegt á tíu ára afmælinu.

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email