FRAM tekur á móti Fylki í Pepsideild karla í knattspyrnu klukkan 19.15 í kvöld á Laugardalsvelli. Þetta er fyrsti heimaleikur okkar FRAMara, en varla þarf að rifja það upp að við unnum Víking í Ólafsvík í fyrstu umferðinni með tveimur mörkum gegn einu. Fylkir tapaði fyrir Val á heimavelli í fyrstu umferðinni, 1-2.
Síðasti leikur FRAM og Fylkis á Laugardalsvelli, sem fram fór í byrjun september í fyrra, var eftirminnilegur, en þá fögnuðu bláir öruggum sigri í Pepsideildinni, 4-0. Kristinn Ingi Halldórsson skoraði tvö fyrstu mörk FRAM í leiknum, Sam Tillen það þriðja og Almarr Ormarsson fjórða og síðasta markið. Þrjú síðustu mörkin skoruðu FRAMarar eftir að Fylkismanninum Ásgeiri Berki Ásgeirssyni hafði verið vísað af leikvelli.
Fylkir vann fyrri leik liðanna í Pepsideildinni í fyrra 1-0 og þá skoraði Davíð Þór Ásbjörnsson eina mark leiksins.
Fylkir fagnaði síðast sigri gegn FRAM í Laugardalnum í ágúst fyrir þremur árum. Pape Mamadou Faye kom Fylkismönnum yfir strax á annarri mínútu, Jón Guðni Fjóluson jafnaði metin úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok og Ingimundur Níelsson skoraði svo sigurmarkið fyrir Fylkismenn tveimur mínútum fyrir leikslok.
FRAM og Fylkir hafa mæst 36 sinnum í deild og bikar; FRAM hefur unnið 15 þessara leikja, 8 sinnum hafa liðin skilið jöfn og 13 sinnum hafa Fylkismenn fagnað sigri. Markatalan er 57-39 FRAM í hag.
Liðin standa hnífjöfn þegar skoðaðar eru innbyrðisviðureignir í deild síðustu fimm árin. FRAM hefur unnið tvo leiki og einn útileik, Fylkir hefur unnið tvo heimaleiki og einn útileik og liðin hafa fjórum sinnum gert jafntefli, tvisvar á hvorum velli.
FRAM hefur unnið báða bikarleiki liðanna á þessu fimm ára tímabili með sömu markatölu, 2-0, annan á Laugardalsvelli og hinn á Fylkisvelli.
Markatalan í leikjunum undanfarin fimm ár er 14-7 FRAM í vil, 18-7 ef bikarleikirnir tveir eru taldir með.
Staðan á leikmannahópi FRAM er með ágætum, allir nema Orri Gunnarsson leikfærir og í góðu standi. Viktor Bjarki Arnarsson tók út leikbann frá síðustu leiktíð í fyrstu umferðinni, en kemur nú inn í leikmannahópinn.
Rétt er að minna á að FRAMherjakortin verða afhent fyrir leikinn í Laugardalnum í kvöld og eru FRAMherjar hvattir til að mæta tímanlega til nálgast kortin sín.