Handknattleiksdeild FRAM hefur samið við danska markvörðinn Stephen Nielsen til tveggja ára. Nielsen, sem er 28 ára að aldri, hefur leikið í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi og varð heimsmeistari með danska U21-árs landsliðinu á sínum tíma.
Nielsen hefur leikið með Flensburg í Þýskalandi, Ringsted og FCK í Danmörku og Drott og Malmö í Svíþjóð. Hjá FCK lék Nielsen með Arnóri Atlasyni, hjá Drott var hann liðsfélagi Gunnars Steins Jónssonar og hann á reyndar enn sterkari Íslandstengsl þar sem hann á íslenska unnustu og hefur dvalið talsvert hér á landi.
Nielsen vann til silfurverðlauna bæði með FCK í Danmörku og Drott í Svíþjóð, hann varð heimsmeistari með U21-árs liði Dana eins og áður segir og varð fjórum sinnum danskur drengjameistari í handbolta. Þá á hann á afrekaskránni danska meistartign í tennis í drengjaflokki.