FRAM heimsækir Keflavík í Pepsideild karla í knattspyrnu í kvöld og er þetta fyrsti leikur þeirra bláu undir stjórn Ríkharðs Daðasonar og Auðuns Helgasonar. Flautað verður til leiks á Nettóvellinum í Keflavík klukkan 19.15.
FRAM situr í áttunda sæti Pepsideildarinnar fyrir leik kvöldsins, sætinu fyrir ofan Keflvíkinga. FRAM hóf leiktíðin á því að vinna Víking í Ólafsvík, gerði jafntefli við Fylki og Val í næstu tveimur leikjum og tapaði svo tveimur í röð, gegn ÍA og Stjörnunni.
Keflavík tapaði tveimur fyrstu leikjunum sínum, gegn FH og KR, vann svo Víking í Ólafsvík, gerði jafntefl við Fylki og tapaði fyrir Val.
Keflavík vann báða deildarleikina gegn FRAM á síðustu leiktíð og heimsóknina til Keflavíkur í fyrra vilja fæstir FRAMarar væntanlega ræða í þaula. Keflavík vann 5-0 og fylgdi þar eftir ágætum sigri í Laugardalnum í fyrri umferðinni, 2-0. Sumarið 2011 unnu liðin hins vegar sinn hvorn heimaleikinn 1-0.
FRAM vann Keflavík síðast í september 2011 þegar Kristinn Ingi Halldórsson tryggði sigur, 1-0, á Laugardalsvelli. FRAM hefur hins vegar ekki fagnað sigri í Keflavík síðan í lokaumferðinni 2008. Hjálmar Þórarinsson tryggði þá sigur, 2-1, með marki tíu mínútum fyrir leikslok og þessi úrslit þýddu að FH-ingar hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum á kostnað Keflvíkinga. Uppskera síðustu fjögurra heimsókna í Bítlabæinn er rýr; þrír tapleikir og eitt jafntefli hafa skilað einu stigi.
Ríkharður Daðason tók sem kunnugt er við þjálfun FRAMliðsins í byrjun síðustu viku og honum til halds og trausts er annar reynslubolti sem þekkir Safamýrina í þaula, Auðun Helgason. Leikurinn í Keflavík í kvöld er fyrsti leikur FRAM undir þeirra stjórn og eru stuðninsgmenn FRAM hvattir til að leggja land undir fót (harla stutt og ánægjulegt ferðalag) og hvetja drengina til dáða.
ÁFRAM FRAM!