fbpx
haf - fors - fotbn

Sannfærandi sigur gegn Þór | Hólmbert skoraði fyrstu þrennu sumarsins

Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net
Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

FRAM fagnaði í dag sannfærandi og sætum sigri gegn Þór, 4-1, í sjöundu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu og lyfti sér þar með upp í sjötta sæti deildarinnar.  Hólmbert Aron Friðjónsson var hetja dagsins, en hann setti þrjú mörk og varð þar með fyrstur leikmanna Pepsideildarinnar til að skora þrennu.

FRAM 4-1 Þór (2-0)
1-0  Hólmbert Aron Friðjónsson 21.mín.
2-0  Steven Lennon 29.mín.
2-1  Mark Tubæk 48.mín.
3-1  Hólmbert Aron Friðjónsson 50.mín.
4-1  Hólmbert Aron Friðjónsson 78.mín.

Þórsarar hófu leikinn í dag nokkuð frísklega, án þess þó að ógna markinu að ráði, en eftir nokkura mínútna leik tóku þeir bláklæddu völdin og stýrðu umferðinni meira og minna allt til loka fyrri hálfleiks.  Markið lá í loftinu og það reyndist biðarinnar virði.  Hólmbert Aron fékk sendingu fram í átt að vítateignum eftir rúmlega tuttugu mínútna leik, Hlynur Atli missti boltann yfir sig og Hólmbert þakkaði pent fyrir með því að smyrja hann upp undir þverslána með þrumuskoti sem minnti einna helst á auglýsingastikluna fyrir nýjustu myndina um manninn frá plánetunni Krypton.  Boltinn virtist reyndar fara í höndina á Hólmbert áður en hann lagði hann fyrir sig, en Valgeir dómari sparaði flautuna og eitt flottasta mark sumarsins stóð óhaggað.  Steven Lennon bætti við marki átta mínútum síðar með snotrum skalla úr þröngu færi og FRAMarar voru mun nær því að bæta við mörkum en Þórsarar að minnka muninn.
Strax í upphafi síðari hálfleiks reiddu Þórsarar þó til höggs þegar Mark Tubæk minnkaði muninn, fékk sendingu inn á teiginn eftir að FRAMarar höfðu hreinsað frá og hélt ró sinni.  Hólmbert kvittaði hins vegar fyrir þetta mark aðeins tveimur mínútum síðar, stýrði þá sendingu Alan Lowing af fagmennsku og endurheimti þar með tveggja marka forystu.  FRAMarar höfðu enn tögl og haldir í leiknum og fjórða markið innsiglaði sannfærandi sigur.  Það skoraði Hólmbert af stuttu færi eftir laglegan sprett Steven Lennon og fyrsta þrenna sumarsins staðreynd.  Lokatölur urðu 4-1 og sigurinn er FRÖMurum afar dýrmætur, stigin þrjú gera það að verkum að bláir halda sig í seilingarfjarlægð við toppliðin og frammistaðan og úrslitin í síðustu leikjum gefa ástæðu til hóflegrar bjartsýni.

Sigurinn í dag var eins og áður segir sanngjarn, FRAMliðið lék á köflum ljómandi vel og brást við flestum útspilum Þórsara af stakri prýði.  Hólmbert er klárlega maður dagsins með sína þrennu, en annars léku allir vel, liðsheildin var sterk og frammistaðan ágæt.

Leikskýrslan.

Pepsideild karla.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!