fbpx
bha - fors- fotbn

Bikardrama í Ólafsvík | FRAM tryggði sér sigur í vítaspyrnukeppni

bha - fotbn
Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

FRAM tryggði sér í gærkvöldi sæti í 8-liða úrslitum Borgunabikakeppni karla í knattspyrnu með því að leggja Víkinga að velli í Ólafsvík 6-5 eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Staðan að afloknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 1-1 og úrslitin réðust ekki fyrr en í fyrstu umferð bráðabana vítaspyrnukeppninnar.

Víkingur 1-1 FRAM (0-1)
FRAM vann 5-4 í vítaspyrnukeppni
0-1  Almarr Ormarsson 29.mín.
1-1  Fannar Hilmarsson 70.mín.
Vítaspyrnukeppnin:
1-0  Steven Lennon skoraði úr fyrstu spyrnu FRAM
1-0  Ögmundur varði spyrnu Damir Muminovic með glæsibrag
2-0  Hólmbert skoraið úr annarri spyrnu FRAM
2-1  Brynjar Kristmundsson skoraði úr annarri spyrnu Víkinga.
2-1  Einar Hjörleifsson varði spyrnu Hauks Baldvinssonar
2-2  Guðmundur Magnússon skoraði fyrir Víkinga
3-2  Jordan Halsman skoraði fyrir FRAM af miklu öryggi
3-3  Emir Dokara skoraði fyrir Víkinga
4-3  Bjarni Hólm skoraði fyrir FRAM með föstu skoti
4-4  Insa Fransisco stóðst pressuna og skoraði fyrir Víkinga
Bráðabani
5-4  Alan Lowing skoraði svellkaldur
5-4  Alfreð Már Hjaltalín skaut framhjá

Ríkharður Daðason, þjálfari FRAM, gerði tvær breytingar á byrjunarliði sínu í gærkvöldi, þær fyrstu sem hann gerir í þjálfaratíð sinni.  Kristinn Ingi Halldórsson og Halldór Arnarsson komu inn í liðið í stað Viktors Bjarka Arnarssonar, sem sat á bekknum, og Ólafs Arnar Bjarnasonar, sem var fjarri góðu gamni í gær.  Jafnræði var með liðunum framan af leik, varkárni og barátta í fyrirrúmi og FRAMarar ívið líklegri til afreka.  Það kom því lítið á óvart að fyrsta mark leiksins væri ættað úr Safamýri; á 29.mínútu fékk Almarr Ormarsson sendingu frá Steven Lennon í hraðri sókn og afgreiddi málið eins og honum einum er lagið. Leikurinn jafnaðist talsvert eftir þetta mark, sóknaraðgerðir Víkinga voru reyndar frekar tilviljanakenndar og fátt að frétta, en krafturinn og baráttan unnu það upp og vörnin gaf fá færi á sér.
FRAMarar léku ágætlega á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks og fengu þrjú ljómandi góð marktækifæri, sem öll fóru forgörðum. Heimamönnum hljóp kapp í kinn, þeir lögðu vissulega áherslu á það að verjast en þokuðu varnarlínunni hægt og bítandi framar og drógu þar með úr sóknarþunga FRAMara. Safamýrarsveinum gekk bölvanlega að eiga við hápressuna og þeir gáfu á sér nokkur færi.  Eitt þeirra nýtti Fannar Hilmarsson tuttugu mínútum fyrir leikslok, komst inn á teiginn vinstra megin og skoraði með ágætu skoti sem Ögmundur hafði þó hendur á og var ekki fjarri því að verja.  Enn jókst barátta og ákveðni heimamanna, þeir kunna sín takmörk og vita hvar styrkleikar þeirra liggja og þeir voru sannast sagna nær því að bæta við marki á lokakaflanum. Þeir börðust um hvern einasta bolta, voru duglegir að loka sendingar- og hlaupaleiðum og voru í tvígang hársbreidd frá því að tryggja sér sigurinn í blálok venjulegs leiktíma; í fyrra skiptið hélt Ögmundur upp á afmælið með því að verja af stakri snilld og síðan átti Farid Zato gott skot sem smaug framhjá markinu.
Við tók framlenging sem lengstum var tíðindalítil, þótt vissulega hafi brugðið fyrir ágætum sprettum FRAMara, sem reyndar skoruðu mark snemma í fyrri hálfleiknum. Það var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.  Eftir mikið jaml, japl og fuður var niðurstaðan sú að hvort lið um sig skoraði eitt mark á 120 leikmínútum og við tók hádramatísk vítaspyrnukeppni.

Þessi bikarsigur var vissulega sætur, hann var torsóttur en ekkert sérlega fallegur.  FRAM lék á köflum ágætlega gegn gríðarlega baráttuglöðu liði heimamnna, en þessir kaflar voru þó full stuttir og vandræðin sem blöstu við eftir að Víkingar færðu varnarlínuna sína framar í síðari hálfleik venjulegs leiktíma klingja bjöllum. Barátta og fórnfýsi Víkinga var til fyrirmyndar og fjölmennið á miðjunni gerði gestunum oft erfitt fyrir. Víkingar eru lítið fyrir það að pakka hlutunum inn og setja á þá borða, þeir djöflast í hverjum einasta bolta og skilja ekkert eftir. Liðin fengu bæði færi í þessum leik, færi FRAMara voru fleiri og hefðu átt að skila fleiri mörkum, en að því er ekki spurt.

Dregið verður til 8-liða úrslita Borgunarbikarkeppni karla í hádeginu á föstudag, 21.júní.

Leikskýrslan

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!