FRAM dróst gegn Gróttu á útivelli í 8-liða úrslitum Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu, en dregið var í hádeginu í dag. Sex úrvalsdeildarlið voru í pottinum, eitt úr 1.deildinni og eitt úr 2.deild. Leikurinn á Seltjarnarnesi fer fram mánudaginn 8.júlí kl. 19.15.
Borgunarbikarkeppni karla | 8-liða úrslit:
ÍBV – KR | Sun.7.júlí kl. 17.00
Víkingur R. – Breiðablik | Sun.7.júlí kl. 19.15
Grótta – FRAM | Mán.8.júlí kl. 19.15
Fylkir – Stjarnan | Mán.8.júlí kl. 19.15
Næsti leikur FRAM á undan bikarleiknum gegn Gróttu er deildarleikur gegn FH í Kaplakrika 3.júlí og næsti á eftir er heimaleikur gegn KR 14.júlí.
FRAM situr sem stendur í sjöunda sæti Pepsideildar karla, hefur unnið þrjá af sjö deildarleikjum sínum, gert tvö jafntefli og tapað tveimur. Árangurinn á útivelli hljóðar upp á tvo sigra, eitt jafntefli og eitt tap. FRAM hefur skorað fimm mörk á útivelli í deildinni og fengið á sig annað eins.
FRAM vann Val í 32-liða úrslitum Borgunarbikarkeppninnar á útivelli 2-1 og lagði Víking í Ólafsvík eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitunum. FRAM fær því þriðja útileikinn í Borgunarbikarkeppninni í 8-liða úrslitunum.
Grótta situr í áttunda sæti 2.deildar, hefur unnið tvo af sex deildarleikjum sínum, gert eitt jafntefli og tapað þremur. Grótta hefur spilað tvo heimaleiki í deildinni, unnið annan þeirra og gerði jafntefli í hinum, hefur skorað eitt mark og ekki fengið neitt á sig.
Grótta vann KH á heimavelli í 1.umferð Borgunarbikarkeppninnar 3-0 og lagði Stál-Úlf 2-1 á útiveli í 16-liða úrslitunum. Grótta vann Hött 3-1 í 32-liða úrslitum og Magna 3-2 í 16-liða úrslitum, en báðir þessir leikir fóru fram á Gróttuvelli. Grótta hefur leikið þrjá heimaleiki í Borgunarbikarkeppninni og einn útileik.
FRAM og Grótta hafa merkilegt nokk aðeins mæst einu sinni áður í kappleik á vegum KSÍ. FRAM vann viðureign liðanna í Visabikarnum 11.júní 2004 með fjórum mörkum gegn engu. Fróði Benjaminsen, Ómar Hákonarson, Heiðar Geir Júlíusson og Kristján Brooks skoruðu mörk FRAM í leiknum. Ríkharður Daðason, þjálfari FRAM, var í byrjunarliðinu í þessum leik og Daði Guðmundsson kom inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks.