fbpx
image

FRAM mátti sætta sig við tap í Eyjum

imageFRAM mátti í dag sætta sig við tap gegn ÍBV, 0-1, í áttundu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu. Gunnar Már Guðmundsson skoraði eina mark leiksins á vindasömum Hásteinsvelli sjö mínútum fyrir leikslok.

ÍBV 1-0 FRAM (0-0)
1-0  Gunnar Már Guðmundsson 83.mín.

Leiksins í Eyjum í dag verður líklega seint minnst fyrir snilldartilþrif eða taumlausa skemmtun, en FRAMarar hljóta þó að naga sig í handarbökin yfir því að hverfa burtu af eyjunni fögru án stiga. FRAM lék á móti nokkuð sterkum vindi í fyrri hálfleik og var sterkari aðilinn. Marktækifærin voru reyndar af skornum skammti, liðin áttu sitt hvort færið sem vert er að minnast á, en gestirnir voru sterkari og mun líklegri til afreka. Færslan á liðinu var ágæt og baráttan til fyrirmyndar, það eina sem vantaði upp á var að skapa, og jafnvel nýta, þokkaleg marktækifæri.
Heyra mátti á stúkuspjallinu í hálfleik að stuðningsmenn þeirra bláklæddu gerðu sér vonir um betri tíð með blóm í haga, enda Eyjamenn með vindinn í fangið og sólina í augun allan síðari hálfleikinn. Þeir eru hins vegar ýmsu vanir og virtust kunna betur við vindinn á vangann en í hnakkann, rétt eins og FRAMarar í fyrri hálfleik. Heimamenn voru sannast sagna líklegri til afreka í síðari hálfleik, þótt lengstum hafi verið jafnræði með liðunum, og á köflum var undarlegt að sjá að flest það sem bláklæddir gerðu vel í fyrri hálfleik gerði þeir illa í þeim síðari. Sigurmarkið í leiknum var snoturt, það er ekki hægt að loka augunum fyrir því. Eftir þunga pressu komst Ian Jeffs í kjörstöðu á vinstri vængnum og sendi fastan bolta inn á teiginn. Gunnar Már þurfti lítið annað að gera en að ýta boltanum yfir línuna og refsa þannig grimmilega fyrir einu grafalvarlegu varnarmistökin sem FRAMarar gerðu í dag.

Niðurstaðan er eins marks tap, sem alltaf er jafn grautfúlt, en líklega  hefði ekki verið hægt að kvarta hátt og lengi þótt uppskeran hefði verið eitt stig. Frammistaðan í fyrri hálfleik var ágæt, fyrir utan það hversu bölvanlega gekk að skapa marktækifæri, en í þeim síðari var löngum á brattann að sækja.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!